22/12/2024

Strandagaldur á Vetrarhátíð

Magnús Rafnsson býr á Bakka í BjarnarfirðiStrandagaldur tekur þátt í Vetrarhátíð Reykjavíkurborgar þann 19. febrúar n.k. í Háskólabíói, þar sem Sinfóníuhljómsveit Íslands frumflytur nýja kvikmyndatónlist eftir Barða Jóhannsson við sænsku kvikmyndina Häxan, sem fjallar um galdra. Hugvísindastofnun mun svo standa fyrir stuttu málþingi um galdra sem haldið verður að sýningunni lokinni og þar mun Magnús Rafnsson halda fyrirlestur ásamt fleiri kunnum fræðimönnum.

Galdrasýning á Ströndum verður með sýningu í anddyri kvikmyndahússins og jafnvel uppákomu eða gjörning í hléinu.

Galdrasýningu á Ströndum hefur nokkur undanfarin ár verið boðið til þátttöku í mörgum stórum menningarviðburðum víða um land og ávallt náð að vekja nokkra eftirtekt. Skemmst er að minnast sýningarinnar sem Strandagaldur setti upp í Norræna húsinu sem stóð allan októbermánuð síðastliðinn í tengslum við alþjóðlegu barnabókahátíðina, Galdur útí mýri. Þar héldu galdramenn af Ströndum uppi lífi og fjöri með hvers kyns skemmtilegum uppákomum allan tímann.

.

Magnús Rafnsson ásamt Vindgapa af Ströndum utan við Norræna húsið í Reykjavík.