22/11/2024

Strandabyggð styður ekki áskorun um að hefja hvalveiðar

Strandabyggð tók fyrir á sveitarstjórnarfundi í gærkvöldi beiðni frá samtökunum
Sjávarnytjum, sem m.a. Félag hrefnuveiðamanna og nokkur verkalýðsfélög og
sveitarstjórnir ásamt stjórn Fjórðungssambands Vestfjarða standa að. Í beiðni
samtakanna var farið fram á stuðning Strandabyggðar við áskorun um að hafnar
verði hvalveiðar við Ísland. Strandabyggð samþykkti hins vegar með þremur
atkvæðum gegn tveimur á fundinum að styðja áskorunina ekki. Hátt í fimmtíu
hagsmunasamtök og bæjarstjórnir hafa skorað á sjávarútvegsráðherra að gefa sem
fyrst út veiðikvóta á hrefnur og langreyðar. Hrefnuveiðimenn vilja fá að drepa
200 dýr í sumar. Í síðustu viku stóðu Sjávarnytjar fyrir heilsíðuauglýsingum í
Morgunblaðinu og Fréttablaðinu til að þrýsta á um málið.

Í texta auglýsinga Sjávarnytja segir að ráðherra ætti að sjá til þess að
hvalveiðar hefjist í sumar, á þeim tegundum og innan þeirra marka sem
Hafrannsóknarstofnun hefur lagt til. Samtökin segja tímabært að leyfa veiðar á
200 hrefnum og jafnframt á að minnsta kosti 150 langreyðum, samkvæmt því sem
stofnunin telur óhætt að veiða. Í auglýsingunni er því haldið fram að um 350
þúsund hvalir séu í hafinu við Ísland. Þeir éti um sex milljónir tonna af
sjávarfangi, þar af tvær milljónir tonna af fiski. Náttúruverndarsamtök Íslands
segja hins vegar að auglýsingin flytji villandi skilaboð. Gefið sé í skyn að
hvalveiðar hafi áhrif á afla þegar rannsóknir Hafrannsóknarstofnunar gefi þvert
á móti til kynna að ekkert samband sé þar á milli.

Eins og fyrr segir
styður sveitarstjórn Strandabyggðar ekki áskorun Sjávarnytja til
sjávarútvegsráðherra að hefja hvalveiðar.