22/11/2024

Strandabyggð staðfestir ljósleiðaralagningu

Nú hafa 24 sveitarfélög víða um land staðfest að þau vilji semja við Fjarskiptasjóð um styrk til lagningar á ljósleiðarakerfum, eins og þau hafa fengið vilyrði fyrir eftir útboð á fjármagni til verksins. Stefnt er að undirritun samninga við fyrstu hentugleika. Í þessum hópi eru Reykhólahreppur með 19 millj. í stuðning og Strandabyggð með 11 millj. í stuðning. Þau eru einu sveitarfélögin á Vestfjörðum sem eru með í verkefninu Ísland altengt á þessu ári, en ákveðið var fyrirfram að sveitarfélög í landshlutanum gætu ekki fengið hærri upphæð en 30 millj. af heildarpottinum samanlagt. Til viðbótar kemur sérstakur byggðastyrkur sem er milljón í tilviki Strandabyggðar.

Í Strandabyggð stendur til að tengja staði sunnan Hólmavíkur við ljósleiðarakerfið og miðast stuðningurinn við þá staði þar sem fólk býr og starfar allt árið. Þeir sem fá tengingar greiða verulegt mótframlag. Strandabyggð hyggst stofna sérstakt B-hluta fyrirtæki um verkefnið, Veitustofnun Strandabyggðar.