30/10/2024

Stórsýning á Ströndum og súpufundir í vikunni!

Þróunarsetrið á Hólmavík í samstarfi við Arnkötlu 2008 hyggst efna til viðamikillar atvinnu- og menningarsýningar á Ströndum í haust og hefur þegar verið ákveðið að hún verður haldin laugardaginn 29. ágúst. Sýningin fer fram í Félagsheimilinu á Hólmavík og er markmiðið tvíþætt. Annars vegar að efla tengsl milli ólíkra svæða og athafna á Ströndum og hins vegar að efla ímynd Stranda út á við með kynningu á atvinnulífi, menningu og mannlífi. Vegna þessarar sýningar verða haldnir súpufundir á fjórum stöðum á Ströndum nú í vikunni þar sem sýningin verður kynnt nánar og eru allir íbúar á Ströndum og velunnarar svæðisins hvattir til að mæta á þá.

Dagskrá súpufundanna í vikunni þar sem sýningin verður kynnt nánar er eftirfarandi:

– Mánudaginn 29. júní 2009: Kaffi Norðurfjörður
– Þriðjudaginn 30. júní 2009: Malarkaffi, Drangsnesi
– Miðvikudaginn 1. júlí 2009: Café Riis, Hólmavík
– Fimmtudaginn 2. júlí 2009: Grunnskólinn á Borðeyri

Súpufundirnir verða haldnir með sama sniði og á Café Riis á Hólmavík síðastliðinn vetur. Þeir hefjast allir kl. 12:00 og gefst gestum kostur á að kaupa hressandi hádegissúpu og gæða sér á henni á meðan verkefnið er kynnt og rætt um það.

Vaxtarsamningur Vestfjarða og Menningarráð Vestfjarða eru styrktaraðilar að sýningunni. Fyrirtækið AssA, þekking & þjálfun í Trékyllisvík, hefur tekið að sér að sjá um framkvæmd hennar og er hægt að nálgast frekari upplýsingar hjá Ingibjörgu Valgeirsdóttur í síma 451-4025. Ingibjörg svarar einnig fyrirspurnum og skráir fyrirtæki, stofnanir, félög og einstaklinga til þátttöku á sýningunni í netfanginu ingibjorg@assaisland.is.