22/12/2024

Stormur á Ströndum

Bálhvasst hefur verið á Ströndum síðan seinnipartinn í nótt. Kl. 6:00 var vindhraði í Litlu-Ávík 31 m/sek, en sá vindhraði á án efa við um önnur svæði og vafalítið er mikið hvassara í vindhviðum. Á Hólmavík hefur Björgunarsveitin Dagrenning verið á ferðinni í morgun síðan um kl. 7:00. Á Hólmavík er mikið sjórok og menn hafa verið að huga að bátum sínum. Að sögn Gunnars S. Jónssonar í stjórnstöð björgunarsveitarinnar hefur verið talsvert um smáfok á staðnum – girðingar, grindverk og smáhús hafa fokið auk þess sem þakplötur hafa losnað á nokkrum húsum. Rúður leika nú á reiðiskjálfi í húsum á Hólmavík og ljósastaurar láta ófriðlega þó veðrið virðist hafa skánað örlítið frá því í morgun. Vind ætti að lægja talsvert eftir hádegi.

strandir.saudfjarsetur.is hvetja fólk til að vera ekki á ferðinni að óþörfu í storminum og einnig að vera ekki feimið við að hringja í Neyðarlínuna 1-1-2 ef það verður vart við fok eða mögulegar skemmdir á híbýlum og hlutum, svo hægt sé að kalla björgunarsveitir til.