Afar vel heppnað Menntaþing var haldið á Hólmavík fyrr í mánuðinum, að undirlagi sveitarstjórnar Strandabyggðar. Á þingið komu góðir gestir, Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra, Margrét Pála Ólafsdóttir skólastjóri og uppeldisfrömuður og Kristín Gísladóttir og Margrét Halldóra Gísladóttir leikskólastjórnendur í Uglukletti í Borgarbyggð. Á Menntaþinginu, sem var síðasti viðburðurinn í röð atburða vegna 100 ára afmælis skólahalds á Hólmavík, var horft til framtíðar og velt upp spurningum um hvert skuli stefna í skólahaldi á Ströndum.
Framhaldsskóladeild fyrir unginga á aldrinum 16-18 ára í samvinnu við vel valinn framhaldsskóla kom ítrekað til umræðu á þinginu. Var einkum rætt um að fyrirkomulag yrði svipað og á Patreksfirði þar sem slík deild hefur haft mikil jákvæð áhrif í samfélaginu. Lofaði Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra að gerð yrði könnun í ráðuneytinu á fýsileika þess að stofna slíka deild á Hólmavík og hvaða módel myndi henta best.
Er þetta mikið fagnaðarefni þar sem um mikið hagsmunamál er að ræða fyrir íbúa og sveitarfélög á svæðinu. Á Fjórðungsþingi Vestfirðinga í september síðastliðnum var samþykkt að framhaldsdeild á Hólmavík væru meðal þeirra 7 verkefna sem sveitarfélög á Vestfjörðum myndu setja á oddinn í sóknaráætlun Vestfjarða árið 2012.
Katrín Jakobsdóttir ávarpaði þingið og hélt snjallt erindi.
Þingið var vel sótt og voru gestir ánægðir með erindi og umræður.
Ingibjörg Benediktsdóttir formaður Fræðslunefndar Strandabyggðar stýrði fundinum.
Kristín Gísladóttir og Margrét Halldóra Gísladóttir leikskólastjórnendur í Uglukletti í Borgarbyggð kynna kenningar Mihaly Csikszentmihalyi og leikskólastefnuna Flæði sem verið er að innleiða í leikskólanum Lækjarbrekku á Hólmavík.
Ingibjörg Valgeirsdóttir sveitarstjóri og Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra.
Margrét Pála Ólafsdóttir skólastjóri, uppeldisfrömuður og hugmyndasmiður Hjallastefnunnar fór á kostum í sínu erindi.
Arnar S. Jónsson Tómstundafulltrúi Strandabyggðar fjallar um menntun og menntunarmöguleika frá unglingsárum til fullorðinsára, sagði reynslusögur og ræddi ítarlega um framhaldsskóladeild á Ströndum.
Menntaþing á Ströndum – ljósm. Jón Jónsson