22/11/2024

Stofutónleikar Moses Hightower að Nýp á Skarðsströnd

Fimmtudaginn 18. ágúst kl. 20:30 heldur sálarkvartettinn Moses Hightower stofutónleika að Nýp á Skarðsströnd í Dalasýslu. Moses Hightower sló óvænt í gegn á síðasta ári með frumburði sínu; Búum til börn. Umfjöllun fjölmiðla, plötusala, tónleikaaðsókn og útvarpsspilun haldast í hendur og sýna að sveitin
hefur snarlega skipað sér í framvarðasveit íslenskra poppara. Textar og tónlist sveitarinnar er öll frumsamin. Textum sveitarinnar hefur m.a. verið líkt við textagerð Spilverks þjóðanna og er þar ekki leiðum að líkjast.

Lagasmíðunum er erfiðara að finna hliðstæðu fyrir hér á landi, þó að augljóslega sé þar ausið duglega úr sálartónlistarbrunni sjöunda og áttunda áratugarins, þar sem andi Bill Withers, Sly & The Family Stone og Curtis Mayfield svífa yfir vötnum.

Hljómsveitina skipa þeir Andri Ólafsson sem syngur og spilar á bassa, Daníel Friðrik Böðvarsson gítarleikari, Magnús Trygvason Eliassen á slagverk og Steingrímur Karl Teague sem syngur og spilar á hljómborð. Allir velkomnir.  Aðgangseyrir kr. 1.500,-