23/12/2024

Steinhús – workshop

Steinhúsið er elsta nafnið á Höfðagötu 1 sem er líka þekkt sem Gistihúsið eða Hótel Matthildur. Nú nýverið hafa tvær listakonur tekið húsið á leigu og ætla að standa fyrir lista- og menningarstarfsemi í húsinu. Ásta Þórisdóttir á Hólmavík og Dagrún Magnúsdóttir í Laugarholti eru þessa dagana að koma sér upp vinnuaðstöðu í húsinu. Þær ætla að vinna að myndlist og handverki sem þær hyggjast selja á staðnum. Hugmyndin er að þetta verði svona “workshop”, opin vinnustofa þar sem fólk getur kíkt inn og fengið sér kaffibolla, spjallað og keypt myndlist og handverk, auk þess sem Steinhúsið ætlar að standa fyrir námskeiðum tengdum myndlist og handverki.

Steinhúsið er nokkuð stórt og ef fleiri vantar vinnustofu, þá eru nokkur laus herbergi á efri hæð til leigu gegn vægu gjaldi. Viðkomandi geta komið vörum sínum í sölu á staðnum. Verið er að móta starfsemina í húsinu, hvenær fastur opnunartími verður og hvað verður selt, en það verður allt auglýst síðar. Nú þegar hefur verið skipulagt fyrsta námskeiðið á vegum Steinhúss, en það er vatnslitanámskeið sem byrjar 16. febrúar n.k. eins og sjá má hér á strandir.saudfjarsetur.is.

"Fólk má gjarnan gauka að okkur hugmyndum um starfsemi í húsinu, þetta er allt á þróunarstigi og allar hugmyndir vel þegnar." Ásta og Dagrún ætla að bjóða gestum og gangandi í kaffi og vöfflur í Steinhúsinu á miðvikudaginn nk. 15. febrúar milli kl. 16-19 og eru allir velkomnir.