Síðasti sýningardagurinn á atvinnu- og menningarsýningunni Stefnumót á Ströndum er í dag, 15. september, frá kl. 13-17 í Félagsheimilinu á Hólmavík. Eru allir sem enn hafa ekki barið dýrðina augum hvattir til að kíkja við og skoða hvað er efst á baugi í atvinnu- og menningarlífinu á Ströndum. Sýningin hefur gengið afar vel og fengið góð viðbrögð. Hún var mjög fjölsótt um opnunarhelgina og síðan hefur verið jafn og þéttur straumur á hana af áhugafólki um byggð og mannlíf á svæðinu. Ljósmyndasýningin NV Vestfirðir með myndum Ágústar G. Atlasonar er uppi í anddyri hússins og er einnig síðustu forvöð að sjá hana.