Eftir að fyrstu tölur úr Norðvesturkjördæmi sem byggja á 2000 atkvæðum hafa verið birtar er Samfylking með mest fylgi og 3 þingmenn, Sjálfstæðismenn og Framsókn eru með 2 þingmenn og Vinstri grænir og Frjálslyndir með 1 þingmann hvor flokkur. Kjördæmakjörnir eru þá Guðbjartur Hannesson, Karl V. Matthíasson, Sturla Böðvarsson, Einar K. Guðfinnsson, Magnús Stefánsson, Herdís Sæmundardóttir, Jón Bjarnason og Guðjón A. Kristjánsson. Það er Anna Kristín Gunnarsdóttir sem er þriðji maður Samfylkingar sem er jöfnunarþingmaðurinn en það sæti getur breyst með breytingu á atkvæðamagni í öðrum kjördæmum. Aðeins hafa verið talin 11% atkvæða í kjördæminu en 25-70% atkvæða í öðrum kjördæmum. Ríkisstjórnin er fallin miðað við fyrstu tölur úr öllum kjördæmum.