Nú standa yfir æfingar á barnaleikritinu Gott kvöld eftir Áslaugu Jónsdóttur hjá Leikfélagi Hólmavíkur og eru leikarar 22. Það er Kristín Sigurrós Einarsdóttir (Stína) sem sér um leikstjórnina að þessu sinni, en hún er jafnframt formaður Leikfélagsins. Fréttaritari strandir.saudfjarsetur.is spurði Stínu út í gang mála við æfingar á leikritinu, enda töluvert verkefni að stýra svona stórum hópi. Kristín hefur lengi verið viðloðandi leikhúsið, en hún er Borgfirðingur, fædd árið 1974 og uppalin á Lundi í Lundarreykjadal. Þar í sveit sá hún frændur sína og sveitunga stíga á svið og hreifst ung af starfi áhugaleikfélaga.
Í framhaldsskóla tók Stína árlega þátt í uppfærslum við fjölbrautaskólana á Akranesi og Sauðárkróki. Fljótlega eftir að hún flutti til Hólmavíkur um síðustu aldamót fór Stína að taka virkan þátt í starfi Leikfélags Hólmavíkur og hefur á einhvern hátt komið að flestum verkefnum síðan árið 2001. Stína fór með hlutverk Sollu í Sex í sveit árið 2003 og hlutverk Þórgunnar í Viltu finna milljón árið 2009, en myndin sem fylgir þessu viðtali er frá æfingum á því leikriti. Hún hefur jafnframt verið formaður leikfélagsins frá því í fyrra og gegnt ýmsum störfum á bak við tjöldin.
Þetta er í þriðja skipti sem Stína tekur að sér leikstjórn. Árið 1993 leikstýrði hún frumsaminni revíu á vegum Ungmennafélags Fljótamanna og árið 2004 leikstýrði hún Þrymskviðu hinni nýrri eftir Hrafnhildi Guðbjörnsdóttur og Hörpu Hlín Haraldsdóttur. Þrymskviða var samvinnuverkefni Grunnskólans á Hólmavík og Leikfélags Hólmavíkur.
Stína tók vel í að svara nokkrum spurningum um leikritið og leikstjórnina:
Hvernig leikrit er Gott kvöld?
„Leikritið er byggt á barnasögu eftir myndlistarkonuna og rithöfundinn Áslaugu Jónsdóttur. Það er fyrir börn á öllum aldri og fjallar um strák sem er einn heima meðan pabbi skreppur að ná í mömmu í vinnuna. Á meðan lifnar bangsi við og svo koma ýmsar verur sem þeir ímynda sér í heimsókn og birtast á sviðinu jafnóðum. Sumar eru fjörugar og skemmtilegar en aðrar frekar leiðinlegar. Það ætti samt enginn að þurfa að óttast og mig langar að taka það fram að sýningin er innan við klukkutími svo það er hægt að fara snemma í háttinn þó maður fari í leikhús eftir kvöldmat.“
Hvernig ganga æfingar?
„Æfingarnar ganga ágætlega. Allir leggja hart að sér og þetta er allt fólk sem hefur mikið að gera í skólanum, vinnunni og ýmsum tómstundum en gefur sér samt tíma til að mæta á æfingar. Það sýnir kannski best hvað það er gaman að leika, enda eru kjörorð leikfélagsins: „Það er svo gaman að leika.“ Við erum búin að æfa flesta daga síðan í lok nóvember og ég er alveg hissa að þau skulu ekki vera búin að fá nóg af mér! Þessi lokasprettur tekur alltaf svolítið á, en svo er þeim mun skemmtilegra þegar allt smellur saman á síðustu æfingunum!“
Hvort er skemmtilegra að leika eða leikstýra?
„Það er rosalega erfitt að gera upp á milli hvort það er skemmtilegra að leika eða leikstýra. Það er mikil reynsla að vera niðri á gólfi og þurfa að hugsa um allt sem á að gerast á sviðinu, hreyfingar, tjáningu, sviðsmynd, ljós, hljóð og búninga og allt þarf þetta að mynda einhverja góða heild. Ég er búin að prófa að koma nálægt flestu sem tilheyrir því að setja upp leikrit síðan ég byrjaði að taka þátt í svona starfi í grunnskóla og framhaldsskóla. Sennilega finnst mér þó allra skemmtilegast að leika, ef ég á að gera upp á milli. En það er líka fínt að geta prófað fleiri verkefni sem tengjast uppsetningum og misjafnt hvað hentar manni að taka þátt í hverju sinni.
Leikstjórnarvinnan hefur verið rosalega skemmtileg. Þetta í annað sinn sem ég leikstýri, fyrra skiptið var skólaleikrit og núna er mikið af krökkum með. Mér finnst mjög skemmtilegt þegar börn og fullorðnir sameinast í svona starfi. Ég var farin að sakna krakkanna og vinnufélaganna úr skólanum svo það er mjög gaman hvað mörg þeirra taka þátt núna.
Það er samt erfitt að feta í fótspor þeirra sem hafa leikstýrt á undan og eins eru sumir leikaranna reyndari en maður sjálfur! En það hjálpar líka, það er mjög gott að hafa reynslubolta í kringum sig sem eru til í að gefa ráðleggingar og hjálpa til við hvaðeina sem þarf að gera. Það verður aldrei of oft sagt hvað fólkið á bak við tjöldin er mikilvægt í svona uppsetningum.“
Er eitthvað meira á dagskránni hjá Leikfélaginu í vetur?
„Þar sem ég sinni einnig formennsku í leikfélaginu þetta leikár vonast ég til að leikfélagið verði með öflugra móti í vetur. Við áttum þrjátíu ára afmæli í ár og erum því á besta aldri. Það er ekki búið að negla niður starf vetrarins, við tökum eitt verkefni í einu. En á aðalfundinum í haust kom meðal annars til tals að halda einhvers konar bókmenntakvöld, þar sem yrði t.d. tekið fyrir eitt skáld og fjallað um verk þess með leik og upplestri. Síðan væri gaman að vera með útvarpsleikrit ef skólaútvarp tekur til starfa.
Einnig munum við vera í samstarfi við skólann um leikrit eftir áramót og er undirbúningur þess hafinn. Það hefur skapast sú hefð að skólinn setji upp leikrit í samstarfi við okkur annað hvort ár og við séum með sýningu í fullri lengd hitt árið. Því má reikna með leikriti ekki seinna en á næsta leikári og mér finnst alveg skoðunarvert hvort það sé heppilegra að setja upp að hausti en vori. Þannig að næsta ár ætti að geta orðið viðburðaríkt hjá leikfélaginu, ekki síður en þetta ár.“
strandir.saudfjarsetur.is óska Kristínu og leikhópnum alls hins besta og þakka fyrir spjallið. Rétt er að hvetja alla sem vettlingi geta valdið að skella sér á leiksýninguna um hátíðirnar.