22/11/2024

Spennan eykst fyrir þorrablót á Hólmavík

Þorrablótið á Hólmavík fer fram í Félagsheimilinu á Hólmavík á laugardagskvöld. Að vanda er undirbúningur í höndum Þorranefndar sem samanstendur af átta konum. Ýmsir aðrir leggja líka hönd á plóginn og hefur skemmtidagskráin verið æfð fyrir luktum dyrum undanfarin kvöld. Maturinn kemur frá Café Riis. Miðaverð  er kr. 6.500.- og ekki er posi í miðasölunni. Húsið opnar svo kl 19:30 á laugardaginn og borðhald hefst kl 20. Hrútfirska hljómsveitin Strákarnir okkar (með Skúla á Tannstaðabakka í broddi fylkingar) leikur fyrir dansi, gömlum sem nýjum. Hægt verður að kaupa miða á dansleikinn sem hefst um hálftólf.