22/11/2024

Sönglagakeppni Vestfjarða haldin í fyrsta sinn

Sönglagakeppni Vestfjarða verður haldin í fyrsta sinn á vordögum 2010.

Auglýst hefur verið eftir lögum til þátttöku og er öllum heimil þátttaka. Veglegum verðlaunum er heitið fyrir sigurlag, t.d. stafrænu upptökutæki frá hljóðfæraversluninni Rín, stúdíótímum í Tankinum, hljóðveri við Önundarfjörð, gistingu á Hótel Ísafirði, flugi með Flugfélagi Íslands, veitingum á veitingastaðnum Við Pollinn á Ísafirði og Vigurferð frá Vesturferðum á Ísafirði.

Verkefnið fékk í haust styrk frá Menningarráði Vestfjarða sem telst mikilvæg viðurkenning á framtakinu, en fjöldi annarra aðila styður keppnina með margvíslegum hætti.


 

Í Sönglagakeppni Vestfjarða er skilyrði að höfundar þurfa að hafa í huga
skírskotun til Vestfjarða við laga- og textasmíð. Rétt til að senda inn
lög og texta hafa allir þeir sem hafa áhuga á keppninni. Sérstakri
valnefnd er fengið það hlutverk að velja lög sem komast í úrslit á
sérstökum úrslitakvöldum þar sem lögin verða flutt að viðstöddum
áheyrendum og dómnefndum.
 
Áætlað er að halda tvö úrslitakvöld, annað á
suðursvæði Vestfjarða og hitt á Ísafirði, þar sem lögin verða flutt í
lifandi tónlistarflutningi af hljómsveit sem sett verður saman til
undirleiks fyrir söngvara sem valdir verða í samráði við höfunda
laganna.

Sérlega vel verður vandað til allrar umgjarðar um keppnina og
hæft fólk fengið til samstarfs við flutning, hljóð og fleira.

Dómnefndir gefa lögum stig og það lag sem fær flest stig samanlagt frá
báðum úrslitakvöldum ber sigur af hólmi. Mögulega verður viðstöddum
áheyrendum gefinn kostur á að hafa áhrif á niðurstöðu með einhverjum
hætti. 

Vefsíða keppninnar hefur verið opnuð og er slóðin www.songvakeppni.is.

Tónlistarmenn og textahöfundar eru hvattir til að taka þátt og senda lög
í keppnina. Skilafrestur er til miðnættis 30. apríl 2010.