22/12/2024

Sögurölt við Steingrímsfjörð

Farið verður í sögurölt við Steingrímsfjörð á Ströndum næstkomandi mánudag, þann 2. júlí kl. 19.30 og lagt af stað frá Húsavíkurkleif, rétt sunnan við bæinn Húsavík. Gangan er skipulögð í samstarfi Byggðasafns Dalamanna, Sauðfjárseturs á Ströndum, Rannsóknaseturs HÍ á Ströndum – Þjóðfræðistofu og Náttúrubarnaskólans. Söfnin hafa tekið höndum saman um vikulegt sögurölt í Dölum og á Ströndum í sumar, í samvinnu við ýmsa aðila. Síðast var fjölmenni í stórvel heppnuðu fornleifarölti í Ólafsdal í Gilsfirði síðastliðinn mánudag.

Í göngunni á mánudaginn verður lagt upp hjá Húsavíkurkleif sem er merkur fundarstaður steingervinga. Þaðan liggur leiðin eftir fjörunni út með firðinum og skammt frá eru tóftir af byggingum í Naustavík, en engin hús standa þar uppi lengur. Sagt verður frá íbúum í Naustavík, m.a. Grafar-Jóni gamla, en hann skyldi eftir sig stórmerkilega dagbók frá því um og eftir miðja 19. öld og á fjölmarga afkomendur á Ströndum. Nú er unnið að því að skrifa dagbókina hans upp á vegum Rannsóknaseturs HÍ á Ströndum. Fylgdarhamar, Einbúinn og Elísuboði eru þarna í grennd og sögur tengdar öllum þessum stöðum.

Gestir hafa síðan val um að rölta í rólegheitum til baka í bílinn frá Naustavík eða ganga áfram að Sauðfjársetrinu í Sævangi (alls 3 km, auðveld ganga). Þaðan verður bílstjórum skutlað til baka í bíla. Fleiri sögustaðir eru á leiðinni, m.a. aftökustaðurinn Lákaklettur við Miðdalsána.

Leiðsögumaður er Jón Jónsson þjóðfræðingur og öruggt að fleiri hafa sögur að segja. Öll sem áhuga hafa eru hjartanlega velkomin í söguröltið. Sauðfjársetrið selur þeim sem vilja kaffi og kökur í Sævangi eftir göngu.

Ef menn vilja gá fyrir gönguna hvort þeir séu afkomendur Grafar-Jóns gamla, þá er að kíkja í Íslendingabók – Jón Jónsson fæddur 14. júlí 1795, dáinn 3. júní 1879.