22/11/2024

„Skyldi hún ná niður til helvítis?“ spurði öndin

Von að hún spyrji!Þegar tíðindamaður strandir.saudfjarsetur.is átti leið um Hafnarbrautina á Hólmavík í morgun varð á vegi hans lítil gul önd sem sat á bakkanum við djúpa skaðræðisholu í steyptri götunni. Eins og anda er siður þá sækja þær gjarnan í tjarnir til að sulla í og synda. "Ég treysti mér nú varla ofan í þessa tjörn", sagði öndin hugsandi við tíðindamanninn þegar hann gekk hjá. "Ég er nýbúin að læra að synda og sé bara ekki til botns". Vesalings öndin hélt hún væri komin að skrúðtjörninni á Hólmavík og áttaði sig ekki á því að hún var á miðri umferðargötu þar sem allt gat gerst. "Skyldi hún ná alla leið niður til helvítis?" spurði hún svo hugsandi og ranghvolfdi í sér augunum.

Tíðindamaður varaði hana við að synda mikið í þessum drullupolli vegna umferðaröryggis og lofaði að koma þeim skilaboðum áleiðis að rétt væri að fjarlægja holuna ljótu, öndum og farartækjum á leið um Hafnarbraut til öryggis.