05/11/2024

Skráning í fullum gangi

Skráning á Strandamannamót og Þuklaraball Sauðfjárseturs á Ströndum sem fara á fram næsta laugardag er í fullum gangi. Að sögn Arnars S. Jónssonar, framkvæmdastjóra setursins, hefur skráningin farið fremur hægt af stað en hann vonast til að "Eyjólfur hressist" síðustu tvo skráningardagana. Þá tók hann einnig fram að búið væri að semja skemmtiatriði sem hæfa tilefninu afar vel og væru örugglega bönnuð innan 18 ára. Gísli Einarsson verður ræðumaður á mótinu, Sauðfjársetrið sér um skemmtiatriðin og Halli og Þórunn spila síðan á Þuklaraballi, en nafngift dansleikjarins hefur nú þegar komist í landsfréttirnar þar sem leitt er líkum að því að Sauðfjársetrið sæki um einkaleyfi líkt og Eyjamenn hafa gert með Húkkaraballið sitt.

Nauðsynlegt er að skrá þátttöku fyrirfram með því að hringja í Arnar í síma 661-2009, en einnig má senda póst í netfangið saudfjarsetur@strandir.saudfjarsetur.is. Skráningu lýkur nk. fimmtudag, en miðaverð er kr. 4.500.-