22/12/2024

Skólabörn gera vef um rækju

Frá því um páska hefur Kristín Sigurrós Einarsdóttir tölvu- og umsjónarkennari við Grunnskólann á Hólmavík unnið að uppsetningu vefsíðu um rækju, rækjuvinnslu og rækjuveiðar ásamt nemendum sínum frá 5.-10. bekk, alls 37 krökkum. Nú er vefurinn tilbúinn og tekur þátt í keppni á vegum Menntamálaráðuneytisins um sjávarútvegsvefi sem fram hefur farið í vetur, en úrslitin úr þeirri samkeppni verða að sjálfsögðu birt á sjómannadag.


Vinnan við vefinn sýnir að með góðri stjórn kennara og nemendum sem tilbúnir eru að vinna er hægt að vinna þrekvirki. Því miður er þó ekki hægt að birta vefslóðina fyrr en úrslitin hafa verið kynnt, en það verður þá gert strax.  Vefurinn tengist heimaslóðum krakkanna sérstaklega, enda er rækjuvinnsa ein af uppistöðunum í atvinnulífinu á staðnum og að sögn Kristínar voru starfsmenn Hólmadrangs sérlega liðlegir við að veita upplýsingar og hjálpa til á allan hátt. Til að fræðast nánar um keppnina má fara á vefslóð Menntagáttar þ.e. http://www.menntagatt.is/default.aspx?pageid=449.