30/10/2024

Skjaldbakan frumsýnd í kvöld

Viðtal: Smári Gunnarsson leikari
Strandamaðurinn Smári Gunnarsson undirbýr nú frumsýningu á verkinu Skjaldbakan sem hann hefur verið að vinna á Hólmavík síðustu vikur. Verkið byggir á þeim ævintýralega atburði þegar sjómaðurinn Einar Hansen dró suðræna risaskjaldböku að landi á Hólmavík árið 1963. Leikritið verður frumsýnt í kvöld klukkan 20:00 í Bragganum á Hólmavík. Þess má geta að þetta er fyrsta hringleikhúsið sem sett hefur verið upp á Hólmavík.

Hefur þig alltaf langað til að verða leikari?
Nei, það gerðist í rauninni bara óvart. Þegar ég var yngri ætlaði ég alltaf að verða atvinnumaður í íþróttum, fótbolta og körfubolta, en ég var eiginlega bara alltaf að meiða mig svo að ég gat það ekki. Ég byrjaði ekkert að leika fyrr en í menntaskóla. Ég var í Menntaskólanum við Sund.

Hvernig kviknaði hugmyndin af því að gera leikrit um skjaldbökuævintýrið?

Hún kviknaði bara þegar ég labbaði inn í gæludýrabúð í London og sá litla skjaldböku, þá kviknaði á perunni. Ég fór að velta fyrir mér hvort það væri búið að gera eitthvað um þetta. Ég vissi að Jón Jónsson og Siggi Atla hefðu einhvern tíma sett upp fræðslusýningu, en svo ekkert meira. Svo ég ákvað bara að kýla á þetta. Ég byrjaði á því að taka viðtöl í janúar til þess að fá upplýsingar um þetta tímabil þegar að skjaldbakan fannst og svo um Einar Hansen sjálfan, hvernig maður hann hefði verið. Upphaflega átti sýningin að snúast um Einar, en svo varð þetta meira um mitt samband við hann. Svo er skjaldbökuævintýrið þungamiðja verksins.

Um hvað fjallar sýningin í grófum dráttum?
Hún byggist á sannsögulegum atburðum, þegar Einar bað mig að passa árabátinn sinn þegar að ég var 6 ára gamall. Miðjan er svo spuni um skjaldbökuævintýrið. Ég verð alltaf að passa mig að kjafta ekki frá öllu þegar ég tala við fólk.

Hvernig hefur ferlið gengið?
Það hefur gengið rosalega vel, fólk er mjög hjálplegt. Eins og með ljósin og allt það, ég kann ekkert á það, en hér er bara hringt í einhvern og málunum reddað. Ég er mjög þakklátur fyrir það. Það er miklu auðveldara að gera þetta hér heldur en í Reykjavík, fólk bara mætir og gerir hlutina. Það sem tekur viku að redda í Reykjavík tekur klukkutíma hérna.

Hvernær áttir þú heima á Hólmavík?
Fyrsta árið mitt bjó ég á Kirkjubóli og svo á Hólmavík þangað til að ég varð 16 ára, það eru sem sagt tíu ár síðan ég flutti. Ég steig reyndar mín fyrstu skref í leiklistinni hérna á Hólmavík. Það verður alltaf sterk tenging við Hólmavík, það er hægt að taka strákinn úr þorpinu en það er erfiðara að taka þorpið úr stráknum. Ég bý núna í London, en ég reyni alltaf að líta á það eins og ég búi ekki í stórborg, heldur ferðast ég bara með mitt litla svæði með mér, eins og ég sé í rauninni bara ennþá í litlu þorpi.

Er ekkert erfitt að vera einleikari?
Það er mjög krefjandi, þú getur ekki stólað á neinn nema sjálfan þig. Það eru bara áhorfendur sem að þú getur haft samskipti við. Og það er mikilvægt að mynda sterkt samband við þá svo að þetta sé ekki bara eins og sögustund. Það er erfitt, en samt skemmtilegt. Ég hef einu sinni gert þetta áður og það gekk bara mjög vel. Ég er með annan fótinn í útlöndum svo að það hentar mér betur að vera einn, þá get ég verið búinn með svoldið þegar að ég kem hingað og enginn bið eftir neinu.

Hvað ertu annars aðallega að bardúsa í lífinu?
Ég starfa bara sem leikari í London. Þetta er rosalega mikið eins og í kvikmyndunum, ég fer í svona prufur og labba inn og þar eru kannski 30 aðrir kallar, svipað gamlir og ég, allir ljóshærðir og í eins fötum, það er mjög fyndið. Þetta er harður heimur en mér gengur bara mjög vel og hef ekki ennþá þurft að fá mér annað starf.

Ertu ekki orðinn spenntur að frumsýna?
Jú, ég er alveg kominn með nokkur fiðrildi í magann. Vonandi verður bara fullur salur og góð stemming.

640-skjaldb1

Æfing á Skjaldbökunni – ljósm. Dagrún Ósk Jónsdóttir