06/11/2024

Skipað hefur verið í Vestfjarðanefndina

Tröllin

Á fundi ríkisstjórnarinnar í lok maí var samþykkt að skipa nefnd til að vinna aðgerðaáætlun á sviði samfélags- og atvinnuþróunar fyrir Vestfirði. Miklar vonir hafa verið bundar við störf þessarar nefndar og hefur nú verið skipað í hana. Formaður nefndarinnar er Ágúst Bjarni Garðarsson fulltrúi forsætisráðuneytisins og auk hans sitja í nefndinni Hanna Dóra Hólm Másdóttir fulltrúi atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, sem jafnframt er starfsmaður nefndarinnar, Daníel Jakobsson fulltrúi norðanverðra Vestfjarða, Aðalbjörg Óskarsdóttir fulltrúi Stranda og Reykhólahrepps og Valgeir Ægir Ingólfsson fulltrúi sunnanverðra Vestfjarða. Vinnan fer fram undir forystu forsætisráðuneytisins í nánu samstarfi við þau ráðuneyti sem við á og í samráði við stýrihóp ráðuneytanna um byggðamál.

Gert er ráð fyrir að nefndin skili tillögum eigi síðar en 31. ágúst. Á vef stjórnarráðsins kemur fram að ekki er greitt sérstaklega fyrir störf í nefndinni og að samráð verði haft við Fjórðungssamband Vestfjarða við mótun tillagna.