02/11/2024

Skíðamót á Steingrímsfjarðarheiði

Á morgun, sunnudaginn 4. mars kl. 16, ætlar Skíðafélag Strandamanna að halda skíðamót á Steingrímsfjarðarheiði. Um er að ræða Kjartansmótið svokallaða og keppt verður í skíðagöngu með hefðbundinni aðferð. Sá sem nær besta tíma í 10 km göngu hlýtur að launum Kjartansbikarinn sem gefinn var til minningar um Kjartan Jónsson skipstjóra á Hólmavík. Veðurspáin fyrir morgundaginn er ágæt og snjóalög á heiðinni með því besta sem verið hefur síðustu ár. Keppt er flokkum frá 6 ára og yngri upp í 65 ára og eldri og eru vegalengdir frá 1-10 km. Þrír efstu í hverjum flokki fá verðlaunapeninga fyrir sæti, en aðrir fá viðurkenningarpening fyrir þátttöku.

Á mánudaginn heldur Skíðafélagið svo aðalfund sinn í húsi Björgunarsveitarinnar og hefst hann klukkan 17.  Á dagskrá eru venjuleg aðalfundarstörf. Nánar má fræðast um störf Skíðafélagsins og mótið á vefsíðunni blog.central.is/sfstranda.