22/12/2024

Skemmtilegt bókakvöld á Galdrasafninu

Már og Magnús - ljósm. Kristinn SchramUm síðustu helgi var bókakvöld á Galdrasafninu á Hólmavík, þar sem kynntar voru þær tvær bækur sem Strandagaldur hefur gefið út undanfarið og lesið upp úr þeim. Höfundar bókanna eru sagnfræðingarnir Már Jónsson, prófessor við Háskóla Íslands, sem tók saman ritið Galdrar og siðferði í Strandasýslu á síðari hluta 17. aldar og Magnús Rafnsson sem tók saman Tvær galdraskræður. Á eftir var spjallað um bækurnar og höfundarnir spurðir spjörunum úr.

Fyrri bókin sem Már Jónsson tók saman inniheldur umfjöllun um margvísleg sakamál og dóma á Ströndum á 17. öld, ásamt uppskriftum á þeim. Meðal annars birtast þar fyrsta sinni allir varðveittir dómar tengdir galdramálum í Trékyllisvík, Galdra-Möngu, seinni Trékyllisvíkurmálum og dauðadóm Klemusar Bjarnasonar í Steingrímsfirði. Margvísleg önnur mál koma við sögu, ásamt sakeyrisreikningum og vogrekslýsingum. Enskur útdráttur fylgir.

Í bókinni Tvær galdraskræður sem Magnús Rafnsson tók saman eru birtar uppskriftir á tveimur gömlum galdraskræðum ásamt galdrastöfum og táknum. Báðar skræðurnar eru varðveittar í handriti frá því laust eftir 1800 og hafa ekki birst á prenti fyrr. Bókin er bæði á íslensku og ensku.  

Bækurnar fást á Galdrasýningu á Ströndum og einnig í vefverslun sýningarinnar.