22/11/2024

Skemmtileg söngkeppni á Ísafirði

645-brynjakaren
Strandamenn fjölmenntu á söngkeppnina SamVest á Ísafirði í gær. Þar kepptu fulltrúar félagsmiðstöðva á Vestfjörðum um þátttökurétt á Söngkeppni Samfés á landsvísu, en GóGó píurnar frá Félagsmiðstöðinni Ozon á Hólmavík gerðu lukku í þeirri keppni í fyrra og lentu í þriðja sæti. Níu atriði frá Ísafirði, Flateyri, Þingeyri, Hólmavík og Bolungarvík kepptu í gær, þar af þrjú frá Ozon á Hólmavík. Brynja Karen Daníelsdóttir sem sigraði í undankeppninni á Hólmavík náði þriðja sæti í Vestfjarðakeppninni. Kristín Helga Hagbarðsdóttir og Eygló Inga Baldursdóttir frá Bolungarvík sigruðu og fara fyrir hönd Vestfjarða á Söngkeppni Samfés 2013.

Meðfylgjandi mynd af Brynju Karen tók Dagrún Ósk Jónsdóttir eftir undankeppnina á Hólmavík þar sem Brynja Karen bar sigur úr býtum.