22/11/2024

Skákhátíð í Árneshreppi hefst í dag

Skákhátíð í Árneshreppi hefst í dag og eru veðurguðir í sólskinsskapi af því tilefni. Von er á mörgum góðum gestum á öllum aldri, stórmeisturum sem byrjendum, sem munu etja kappi við vaska sveit heimamanna. Hátíðin verður sett í gömlu síldarverksmiðjunni í Djúpavík klukkan 20 í kvöld, föstudag. Teflt verður í glæsilegum og óvenjulegum skáksal, sem forðum var mjölgeymsla í stærstu verksmiðju á Íslandi. Eftir setningarathöfn verður slegið upp tvískákmóti, þar sem tveir eru saman í liði.

Á morgun, laugardag klukkan 12, hefst Minningarmót Guðmundar Jónssonar frá Stóru-Ávík. Guðmundur, sem lést í apríl, var mikill skákáhugamaður og lét sig aldrei vanta á skákþingum. Meðal keppenda á mótinu verða fjórir stórmeistarar, þeir Jóhann Hjartarson, Helgi Ólafsson, Henrik Danielsen og Þröstur Þórhallsson. Mótið er öllum opið og þátttaka er ókeypis. Tefldar verða 9 umferðir með 10 mínútna umhugsunartíma.

Til mikils er að vinna og verðlaun glæsileg. Sigurvegarinn hlýtur 50 þúsund krónur og skúlptúr eftir Guðjón Kristinsson frá Dröngum. Meðal annarra vinninga er listaverk úr rekaviði eftir Valgeir Benediktsson í Árnesi, margskonar handverk og hannyrðir eftir íbúa í Árneshreppi, sigling á Hornstrandir, gisting í Hótel Djúpavík og gistiheimilum Árneshrepps og lambalæri frá Melum.

Þá eru vinningar frá Forlaginu, Henson, Skugga, 66° Norður, Kaupfélagi Steingrímsfjarðar, Ungmennafélaginu Leifi heppna og Jóhanna Travel, sem leggur til arabískar slæður og sjöl. Sérstök verðlaun eru fyrir bestan árangur barna, heimamanna og stigalausra. Síðast en ekki síst verða best klæddu keppendurnir verðlaunaðir, auk þess sem veitt eru sérstök háttvísisverðlaun.

Á sunnudaginn klukkan 13 verður svo hraðskákmót í Kaffi Norðurfirði. Tefldar verða 6 umferðir með 5 mínútna umhugsunartíma.

Þetta er annað árið í röð sem skákhátíð er haldin í Árneshreppi. Allir eru hjartanlega velkomnir! Nánari upplýsingar á www.skakhatid.blog.is.