Matseðill á sjávarréttasmakki Bryggjuhátíðar á Drangsnesi sem haldin er á morgun, laugardaginn 16. júli, er fjölbreyttur að venju. Þessi óvenjulega máltíð hefur sett skemmtilegan svip á hátíðina allt frá upphafi. Margt er árvisst en svo er alltaf eitthvað nýtt og óvenjulegt á hverju ári. Fréttarritari Stranda komst yfir minnisblað Kvenfélagsins Snótar og tekur sér það bessaleyfi að birta hann hér svo gesti Bryggjuhátíðar geti farið að hlakka til. Hefst þá upptalningin: Grilluð sigin grásleppa, grillaður lundi, grillaður selur, grillað hrefnukjöt, selabollur og ufsabollur í súrsætri sósu, siginn fiskur og selspik, skötustappa, hrár saltfiskur, reyktur rauðmagi, reyktur lundi, soðinn selur, súrsuð egg, fiskur í hlaupi, grafin keila og silungur, djúpsteikt keila og steiktur koli, marineraður karfi, heimabakað hveitibrauð og rúgbrauð.
Þessi upptalning á örugglega eftir að lengjast eitthvað ef að líkum lætur. Sjávarréttasmakkið hefst kl 12.30 og stendur til kl. 14 ef að birgðir endast.
Girnilegt matarhlaðborð á Bryggjuhátíð freistar margra
.