Aukasólir eru ekki mjög algengt ljósfyrirbæri á Ströndum, en sjást helst þegar sól er lágt á lofti. Fyrir nokkrum dögum voru þrjár sólir á lofti samtímis við Steingrímsfjörðinn. Sólin var þá í úlfakreppu, því gíll og úlfur sáust samtímis sitt hvoru megin við hana. Aukasólir myndast við ljósbrot sólargeisla í ískristöllum í skýjategundinni grábliku. Oft sést rosabaugur um leið, en því var ekki að heilsa þegar ljósmyndari strandir.saudfjarsetur.is festi sólina, gílinn og úlfinn, á mynd síðla kvölds fyrir skemmstu, laust áður en sólin settist yfir Hólmavík. Þjóðtrú um veður segir að sjaldan sé gíll fyrir góðu, nema úlfur á eftir renni.
Þrjár sólir á lofti – ljósm. Jón Jónsson