22/11/2024

Sigurður Atlason spurður út í Eyrarrósina

Í vikunni kom fram að Strandagaldur sem stendur m.a. fyrir uppbyggingu Galdrasýningar á Ströndum væri eitt af þremur menningarverkefnum sem væri tilnefnt til Eyrarrósarinnar 2007, en það eru helsta viðurkenningin sem slíkum verkefnum stendur til boða hér á landi. Verðlaunin sjálf verða afhent á Bessastöðum á miðvikudaginn. Aðrir sem tilnefndir voru eru Safnasafnið í Eyjafirði þar sem mikil uppbygging hefur verið síðustu ár og Sumarhátíð í Skálholti sem er orðin rótgróin menningarhátíð. Fréttaritari strandir.saudfjarsetur.is tók hús hjá Sigurði Atlasyni framkvæmdastjóra Strandagaldurs og spurði hann út í þessa tilnefningu.

Eru galdrasýningarmenn ekki kátir með tilnefninguna?

"Jú, þetta er mikill heiður fyrir Strandagaldur og gaman að verkefnin okkar skuli vera tilnefnd. Þetta er ekki minni heiður en þegar Strandagaldur fékk viðurkenningu á Degi íslenskra tungu í tengslum við verðlaun Jónasar Hallgrímssonar fyrir tveimur árum. Þetta er mjög gleðilegt og um leið verðskuldað. Það er líka mikilvægur tímapunkur fyrir Strandagaldur að fá þessa tilnefningu núna og vekur vonandi frekari eftirtekt á verkefnum stofnunarinnar í framhaldinu."

Af hverju fær Strandagaldur þessa viðurkenningu?

"Strandagaldur fær þessa viðurkenningu fyrir mikinn fjölbreytileika á sviði menningartengdrar ferðaþjónustu og kraftmikla uppbyggingu. Einnig komst dómnefndin að þeirri niðurstöðu að verkefnið hefði mjög jákvæð áhrif á byggðaþróun og uppbyggingu atvinnulífs í héraðinu og hafi dregið mikla athygli að því."

Hafa svona verðlaun einhver áhrif á framvindu mála?

"Þessi tilnefning hleypir auðvitað auknum krafti í okkur, það er gott að fá klapp á bakið við og við."

Eru einhverjar nýjungar á döfinni hjá Strandagaldri?

"Strandagaldur hefur verið að styrkja stöðu sína sem menningarverkefni í fremstu röð á landsvísu upp á síðkastið. Kotbýli kuklarans á Klúku í Bjarnarfirði var opnað sumarið 2005 til viðbótar við Galdrasafnið á Hólmavík og hefur tekist mjög vel til með þessar sýningar og þær hafa mikið aðdráttarafl. Svo er starfsemi Strandagaldurs í öðrum verkefnum alltaf að aukast, til dæmis með rannsókn á hvalveiðum við Strandir á 17. öld og hugmyndavinnu og verkefnum í kringum Þjóðtrúarstofu sem er að byrja að láta til sín taka.

Strandagaldur stefnir að því að byggja upp menntatengda ferðaþjónustu á Ströndum, en Þjóðtrúarstofan var m.a. sett á stofn í þeim tilgangi. Það er gaman að segja frá því að næsta föstudag þá verður í fyrsta sinn kennsla á háskólastigi á Hólmavík. MA-nemendur í Hagnýtri menningarmiðlun í Háskóla Íslands koma þá á Hólmavík og sækja námskeið þar sem fjallað verður um menntatengda ferðaþjónustu og kennarar á námskeiðinu eru af Ströndum.

Fornleifarannsóknin á hvalveiðistöðinni við Hveravík eða Baskaverkefnið eins og við köllum það var lítill snjóbolti sem er að verða stærri og stærri. Rannsóknir á Strákatanga lofa góðu. Vonandi verður settur upp vísir að sýningu um hvalveiðar á N-Atlantshafi fyrr á öldum á Drangsnesi á næstu árum. Svo þurfum við auðvitað að halda áfram við uppbyggingu Galdrasýningarinnar sjálfrar, en þar bíða úrlausnar fjölmörg spennandi verkefni."

Heldurðu að Strandagaldur vinni sjálf aðalverðlaunin?

"Það eru 33% líkur á því að Strandagaldur fái Eyrarrósina. Við eigum jafn mikla möguleika og hin verkefnin tvö sem eru tilnefnd. Þetta eru ólík verkefni og því er ekki gott um það að segja. Alla vega þá ætlum við að fjölmenna á Bessastaði og gera okkur glaðan dag og njóta hans."

 

Galdrasafnið á Hólmavík fær um átta þúsund gesti á ári hverju

Magnús Rafnsson og Ragnar Eðvaldsson á kafi í fornminjum eftir veru hvalveiðimanna á Strákatanga

Kotbýli kuklarans

Kotbýli kuklarans, annar hluti Galdrasýningar á Ströndum dregur einnig að sér fjölda fólks

Sigurður Atlason og Jón Jónsson glaðbeittir á skrifstofu Strandagaldurs á Hólmavík þar sem lagt er á ráðin um fyrirhuguð framtíðarafrek, verkefni Þjóðtrúarstofu og margt fleira.