30/10/2024

Sigurður Atlason fær hvatningarverðlaun vestfirskrar ferðaþjónustu

Sigurður Atlason, formaður Ferðamálasamtaka Vestfjarða og framkvæmdastjóri Galdrasýningar á Ströndum, fékk hvatningarverðlaun ferðaþjónustunnar á Vestfjörðum í ár. Frá þessu er sagt á bb.is. Ákveðið var að veita sérstök hvatningarverðlaun til einstaklings eða fyrirtækis sem starfar í ferðaþjónustu á Vestfjörðum og álitið er að skarað hafi fram úr á árinu 2011 varðandi nýsköpun, þjónustu eða umhverfisstefnu. 19 tilnefningar bárust og þar gaf að líta ferðaþjóna sem hafa unnið þrekvirki í þágu vestfirskrar ferðaþjónustu. Það var samróma niðustaða dómnefndar sem skipuð var fulltrúum af öllum Vestfjörðum, að Sigurður Atlason væri fremstur meðal jafningja og fékk hann því hvatningarverðlaun fyrir uppbyggingu ferðaþjónustu á Vestfjörðum.

Var það ekki eingöngu vegna starfs hans við Galdrasýninguna síðastliðin áratug, heldur einnig vegna starfs hans við uppbyggingu ferðaþjónustunnar sem hann hefur unnið ötullega að með formennsku sinni í ferðamálasamtökunum. Meðal annars með vinnu sinni vegna kaupa Ferðamálasamtaka Vestfjarða á Vesturferðum og sameiningu ferðaþjóna undir merkjum Vesturferða. Þá hefur hann einnig unnið að umhverfisvottun Vestfjarða sem nú er í bígerð.

„Sigurður hefur með einstökum dugnaði rutt brautina hvað varðar samvinnu ferðaþjóna á svæðinu m.a. með kaupum FMSV á Vesturferðum. Hann hefur einnig af þrautsegju og harðfylgi unnið ötulega að málefnum umhverfisvottunar Vestfjarða, ásamt því að reka einn vinsælasta viðkomustað ferðamanna á svæðinu. Það er enginn vafi í okkar huga að Sigurður hefur af einskærri ósérhlífni og framsýni átt stóran þátt í þeirri þróun sem undanfarið hefur einkennt og vakið mikla athygli á ferðaþjónustu á Vestfjörðum,“ segir í umsögn dómnefndar. Verðlaunin eru 50.000 krónur en taka skal fram að Sigurður vildi ekki taka við vinningsfénu og ákvað að það rynni til Markaðsstofu Vestfjarða.

Verðlaunin voru afhent á uppskeruhátíð ferðaþjónustunnar sem haldin var í fyrsta sinn að Núpi í Dýrafirði um helgina. Þótti hátíðin heppnast hið besta fyrir utan að ferðaþjónar af sunnanverðu svæðinu komust ekki þar sem Hrafnseyrarheiði var ófær. Var ákveðið að hátíðin yrði haldin fyrr að ári til að freista þess að samgöngur verði enn greiðar.

Ákveðið var að halda uppskeruhátíðina á stefnumótunarfundum sem haldnir voru á vegum Ferðamálasamtaka Vestfjarða um allan fjórðunginn í þeim tilgangi að ná fram sjónarmiðum flestra þeirra sem starfa eða tengjast inn í greinina. Var þar ákveðið að efna til uppskeruhátíðar ár hvert þar sem ferðaþjónustuaðilar gerðu sér glaðan dag og færu yfir árangur sumarsins. Á þeirri uppskeruhátið yrðu einnig veitt verðlaun fyrir frumkvöðla ársins, gæðaverðlaun eða viðurkenningu fyrir góðan árangur í umhverfismálum.