23/12/2024

Síðasta sagnakvöldið á Galdraloftinu verður í kvöld

Sagnadagskráin Álfar og tröll og ósköpin öll er að syngja sitt síðasta en ákveðið hefur verið að síðasta sýningin verði í kvöld. Sýningarnar hafa verið á Galdraloftinu á Hólmavík síðan 19. júlí öll fimmtudags- föstudags- og laugardagskvöld. Áður hafði verið auglýst að sýningarnar myndu verða út ágúst en að sögn Sigurðar Atlasonar þá gefa miðapantanir undanfarið ekki tilefni til að halda dagskránni lengur úti í sumar. "Það hafa verið viss vonbrigði með aðsóknina  en það hefur þurft að fella niður sýningar nokkur kvöld vegna ónógra pantana því það er ekki hægt að vera að setja upp umgjörðina upp á von og óvön", segir Sigurður Atlason hjá Strandagaldri. "Í kvöld eru eingöngu tvær pantanir og það er óþarfi að vera að reyna að halda þessu úti mikið lengur". 

Á sagnakvöldinu bregður Sigurður sér í allskonar gerfi og stekkur á milli sagnaveralda í hendingskasti á áttatíu mínútum. "En þetta er búið að vera mjög skemmtilegt og þeir fáu sem hafa mætt hafa skemmt sér óskaplega vel, og það er nú fyrir öllu" segir Sigurður að lokum og geyspar.

Miðapantanir eru í síma 451 3525 á milli klukkan 10:00-18:00.