25/11/2024

Seinasta plógfar ársins

Í vorblíðunni sem verið hefur yfir jólin hafa bændur illa tollað inni við bóklestur eða bænagjörð nema svona rétt um það allra helgasta. Víða um lönd mun það vera talið tilheyra jólahátíðinni að gera umkomulausum gott um jól og þá helst í mat eða klæðum ásamt því að veita þeim félagsskap um hátíðirnar. Út af þessum sið brá Birkir bóndi í Tröllatungu ekki þegar umkomulaus hrútur, nokkuð við aldur, stóð á fjárhúshlaðinu hjá honum á jóladagsmorgun og mændi vonaraugum til fjárhúsdyranna  þaðan sem ómur ástalífsins barst út í drungalegan morgunroðann.

Húsaskjól og fóður mun fljótt hafa staðið til boða, en líklega hefur gesturinn ekki verið talinn hafa þá ættgöfgi til að bera að fá að gerast þáttakandi í kynbótastarfi Strandamanna enda úr fjarlægri sveit.

En annað mun sjaldséðara  á þessum tíma árs á Ströndum tók Tröllatungubóndinn sér fyrir hendur nú fyrir áramótin, því hafist var handa við endurræktun túna. Þann 29. des. var tekin þriggja hektara spilda í túninu sem taka á til endurræktunar og plægð upp  og má telja víst að þetta sé síðasta plógfar ársins á Ströndum.

Það er Guðbrandur Sverrisson á Bassastöðum sem plægir.