Saumaklúbbarnir hér í Árneshreppi eru taldir dáldið sérstakir vegna þess að körlum er boðið í þá líka og hefur það tíðkast til margra ára. Konur eru við hannyrðir, en karlmenn taka í spil og spila þá bridds eða vist og jafnvel er telft ef þannig stendur á með menn í spilin. Klúbbarnir eru haldnir á flestum bæjum og taka flestir hreppsbúar þátt, oftast eru klúbbarnir haldnir á hálfsmánaðarfresti.
Nú í gærkvöld var fyrsti klúbbur vetrarins haldin af Margréti Jónsdóttur og Gunnsteini Gíslasyni á Bergistanga í Norðurfirði og var góð mæting að venju. Konur voru við hannyrðir, en karlmenn spiluðu vist eða bridds, spilað var á þrem borðum. Alltaf eru veisluborð í lok klúbbanna. Þetta er eitt af því fáa sem gert er hér í þessari fámennu sveit til að koma saman.
Ljósm. Jón G G. fréttaritari strandir.saudfjarsetur.is í Árneshreppi