Í morgun opnaði Sauðfjársetur á Ströndum sýningu sína, kaffistofu og handverksverslun í félagsheimilinu Sævangi. Þetta er fimmta starfsár setursins og að sögn Arnars S. Jónssonar framkvæmdastjóra eru menn bjartsýnir á að sumarið verði gjöfult, bæði hvað varðar gestakomur og veðursæld. Fyrstu gestirnir mættu reyndar í fyrradag, en það eru ellefu rammíslenskir hænuungar sem ætla að dvelja í Sævangi fram á haustið. Áhugasamir geta kíkt í Sævang, spjallað við ungana og jafnvel haldið á þeim. Ýmislegt annað hefur bæst við og breyst í Sævangi og á döfinni eru enn frekari breytingar og nýjungar, bæði á sýningu og húsnæði.
„Núna í júní ætlum við síðan að endurhanna sýninguna uppi á sviðinu, en þar verður meðal annars máluð heljarstór mynd á veggina. Þá er einnig á döfinni að koma upp sérstökum myndum í gluggana í salnum, setja upp horn sem fjallar um starf ráðunautanna, koma upp internetkaffi, herja á tískumarkaðinn með bolaframleiðslu og setja upp útiskilti um nágrennið og náttúruna við Sævang – svo fátt eitt sé nefnt. Svo koma auðvitað heimalningarnir í næstu viku og þá geta gestir farið að spreyta sig á mjólkurpelanum. Það er sem sagt fullt að gerast og við höldum áfram að vinna í að breyta og bæta í allt sumar“, sagði Arnar S. Jónsson í samtali við strandir.saudfjarsetur.is í dag.
Sauðfjársetrið í Sævangi er opið alla daga frá kl. 10:00 til 18:00. Fyrsta kaffihlaðborð sumarsins verður haldið á sjómannadaginn, sunnudaginn 3. júní. Hlaðborðið hefst kl. 10:00 og stendur yfir allt til kl. 18:00, en sérstök áhersla verður lögð á vöfflubakstur þennan dag. Hænuungarnir bíða að sögn Arnars spenntir eftir því að hitta hlaðborðsgesti og hafa lofað að haga sér skikkanlega.
Handverksbúð Sauðfjársetursins.
Kaffistofan í Sævangi. Margir muna eftir bláu stólunum sem eru nú búnir að fara í yfirhalningu og bólstrun.
Listakonan Ásdís Jónsdóttir málar ýmsar furðufígúrur á veggi barnahornsins.
Barnahornið í Sauðfjársetrinu.
Hænuungarnir í Sævangi bíða spenntir eftir heimsóknum.
Ljósm. Arnar Jónsson