22/12/2024

Sauðfjársetrið óskar eftir hjálp

Í gær var haldinn undirbúningsfundur hjá starfsmönnum Sauðfjársetursins á sýningunni í Sævangi, þar sem lagt var á ráðin um starfsemi sumarsins. Framundan er mikil törn um næstu helgi við uppsetningu sýningarinnar og undirbúning í Sævangi og varð að ráði að auglýsa eftir hjálpfúsum höndum til að taka þátt í því verkefni. Með því móti gæti uppsetningin gengið hratt og örugglega fyrir sig. Áhugasamir sjálfboðaliðar geta tilkynnt þátttöku hjá Jóni Jónssyni í síma 690-3180 eða á saudfjarsetur@strandir.saudfjarsetur.is eða bara mætt í Sævang eftir hádegi á laugardag eða sunnudag. Kaffi verður á könnunni og kökur með og menn ráða alveg sjálfir hversu lengi þeir staldra við.

Á starfsmannafundinum var ákveðið að fyrstu dagana yrði vöfflukaffi á boðstólum á Sauðfjársetrinu, á meðan verið er að baka og ná upp birgðum af kaffibrauði á kaffistofuna. Það verður síðan á Sjómannadaginn, sunnudaginn 5. júní frá 14-18, sem fyrsta kaffihlaðborð sumarsins verður haldið og sama dag verður fjölskyldufótbolti á Sævangsvelli kl. 16:00. Kaffihlaðborð verða síðan á hverjum sunnudegi í júní og einnig á 17. júní, en kaffistofan er einnig alltaf opin á opnunartíma safnsins sem er frá 10-18. Hægt er að fá þar kaffihlaðborð eða súpu, brauð og salat fyrir hópa hvenær sem er ef pantað er fyrirfram.

Starfsmenn sumarsins – Hafdís, Kristín og Hrafnhildur.

Af stórviðburðum í júní má nefna Furðuleikana 2005 sem verða haldnir þann 19. júní. Verður þar mikið um dýrðir eins og síðasta sumar. Sama dag, um kvöldið verður líklega gönguferð á degi hinna villtu blóma, en hún verður nánar auglýst síðar. Verið er að spekúlera í fleiri gönguferðum, t.d. í tengslum við Jónsmessuna, og líklegt er að fjölskyldubolti verði oftar. Stefnt er að hagyrðingakvöldi á Hólmavík síðasta dag júnímánaðar – fimmtudagskvöldið 30. júní – þar væri um að ræða upphitun fyrir Hamingjudaga á Hólmavík sem haldnir eru helgina 1.-3. júlí. 

Handverksbúð verður í Sævangi eins og síðustu sumur og eru handverksmenn á Ströndum einnig hvattir til að koma varningi til að hafa á boðstólum í henni út í Sævang um helgina. Auk kaffistofunnar og sögusýningarinnar verður dálítil sjoppa á Sauðfjársetrinu í sumar og íspinnar verða á boðstólum frá fyrsta degi.

Frá Furðuleikunum á síðasta ári.