30/10/2024

Sauðburður í október

Vegfarandi um Steingrímsfjörð rak upp stór augu í rökkrinu í gærkvöldi þegar hann átti leið fram hjá bænum Hrófá í Steingrímsfirði, en rétt utan við vegarkantinn var nýfætt lamb að stíga sín fyrstu spor í veröldinni. Það fer greinilega vel um móður og lamb í haustblíðunni sem hefur legið yfir undanfarna daga, en þessi litli einstaklingur hefur ekki mikil tækifæri á að hitta einhverja jafnaldra sína og bregða á leik með þeim. Náttúran lætur ekki að sér hæða og það er líkt með blessuðum ferfætlingunum og mörgum manninum að það getur reynst erfitt að standast áskorunina þegar holdið kallar, þó það sé hvorki tímabært né við hæfi.


Ljósm.: Sigurður M. Þorvaldsson