22/12/2024

Sandra Dögg er Strandamaður ársins 2006

Sandra Dögg Guðmundsdóttir, 12 ára gömul stúlka á Drangsnesi, er Strandamaður ársins 2006. Hún sigraði í kosningu hér á vefnum strandir.saudfjarsetur.is milli þeirra þriggja sem flestar tilnefningar fengu í fyrri umferð. Bjarnheiður Fossdal á Melum í Árneshreppi sem hefur sýnt fádæma dugnað við að ná bata eftir alvarlegt bílslys í sumar varð í öðru sæti og var ekki verulegur munur á atkvæðafjölda þeirra. Arnar S. Jónsson framkvæmdastjóri Sauðfjárseturs á Ströndum lenti svo býsna örugglega í þriðja sætinu. Frábær þátttaka var í kosningunni um Strandamann ársins 2006 í seinni umferðinni.

Sandra Dögg Guðmundsdóttir hefur af dugnaði og æðruleysi glímt við erfiðan augnsjúkdóm og staðið sig mjög vel í þessari baráttu, verið jákvæð og dugleg. Um leið hefur hún staðið sig vel í skólanum. Sandra sagði í samtali við fréttaritara strandir.saudfjarsetur.is að í skólanum hefði hún sérstakt borð til að læra við og notaði svokallaða stækkunarsteina til að lesa. Hún segir að það hefði komið henni mjög á óvart að hún væri tilnefnd í kosningunni um Strandamann ársins og ekki síður að vinna þá kosningu.

Sandra fór í fimm augnaðgerðir til Reykjavíkur á síðasta ári og þurfti að liggja margar vikur á sjúkrahúsi. Upp um sjúkdóminn komst í júní í fyrra í hefðbundnu eftirliti og hafði þá rifnað sjónhimna á hægra auga. Sandra er búin að fara í fjórar aðgerðir út af hægra auganu og eina út af vinstra auganu sem kom í ljós að var líka byrjað að gefa sig. Sjónin er horfin á hægra auga og búið er að gefast upp á að reyna lækningu á því, en vinstra augað heldur núna 40% sjón með gleraugum. Brugðið getur til beggja vona með sjónina á því, en Sandra segir hugsanlegt að hún verði send úr landi í aðgerð á vinstra auganu.  

Sandra er þriðji Strandamaður ársins sem valinn er af lesendum strandir.saudfjarsetur.is. Í tilnefningum í fyrri umferð kosningarinnar á Strandamanni ársins segir meðal annars að Sandra hafi “staðið sig eins og hetja,” og “aldrei misst vonina um betri sjón”. Hún hafi “sýnt þvílíkan kjark í sínum veikindum” og sé “aðdáunarverð”. Foreldrar Söndru eru Guðmundur Guðmundsson og Margrét Ólöf Bjarnadóttir á Drangsnesi.

Áður hafa verið kosnir Strandamenn ársins Sverrir Guðbrandsson á Hólmavík árið 2004 en hann gaf á því ári út æviminningar sínar í bókinni Ekkert að frétta. Bók Sverris fékk mikið lof, enda er hún einstaklega vel heppnuð – húmorísk og einlæg ævisaga sem er ómetanlega heimild um mannlíf og búskap á Ströndum á 20. öldinni. Árið 2005 var Guðbrandur Einarsson á Broddanesi valinn Strandamaður ársins en hann vakti þjóðarathygli þegar hann gekk hringveginn með Bjarka Birgissyni sundkappa í átakinu Haltur leiðir blindan. Með göngunni vöktu þeir félagar verðskuldaða athygli á starfsemi Sjónarhóls og málefnum fatlaðra og langveikra barna, um leið og þeir sýndu alþjóð að fatlaðir geta meira en margan grunar.

Sandra Dögg Guðmundsdóttir – Strandamaður ársins 2006