22/12/2024

Samfylkingarfólk, styðjið Guðbjart Hannesson til forystu

Aðsend grein: Hörður Ó. Helgason
Dagana 28. – 29. október n.k fer fram prófkjör Samfylkingarinnar í Norvesturkjördæmi. Þá fá stuðningsmenn flokksins gott tækifæri til að hafa bein áhrif á skipan framboðslista Samfylkingarinnar fyrir alþingiskosningarnar vorið 2007. Slíkt tækifæri gefst ekki oft og því er mikilvægt að það sé nýtt á sem bestan hátt.

Einn af þeim sem býður sig fram í prófkjörinu er Guðbjartur Hannesson. Guðbjartur hefur verið skólastjóri Grundaskóla á Akranesi í 25 ár og hefur stjórnað skólanum á farsælan hátt eins og alkunna er. Meðfram starfi sínu í Grundaskóla hefur hann einnig gegnt margvíslegum trúnaðarstörfum tengdum skóla- og æskulýðsstarfi, m.a. hjá skátahreyfingunni og íþróttafélögum á Akranesi.

Guðbjartur er þekktastur fyrir störf sín að skólamálum, en hann hefur komið víðar við. Hann sat m.a. í bæjarstjórn Akraneskaupstaðar í 12 ár og var öll árin í bæjarráði. Einnig sat hann í bankaráði Landsbanka Íslands í 5 ár og hefur einnig setið í stjórnum ýmissa fyrirtækja.

Guðbjartur er kennari að mennt, hann hefur einnig menntun í fjármálastjórnun. Hann lauk meistaraprófi frá Lundúnarháskóla þar sem lokaverkefnið fjallaði um fjármál og menntun.  

Af þessari upptalningu, sem er þó alls ekki tæmandi, má sjá að Guðbjartur hefur aflað sér dýrmætrar reynslu og þekkingar á margvíslegum málaflokkum, s.s. skólamálum, æskulýðsmálum, stjórnmálum, fjármálum og rekstri. 

Ég hef þekkt Guðbjart lengi og get því fullyrt að hann er afbragðsmaður. Hann er réttsýnn, glöggur og rökfastur. Ég er þess fullviss að hann yrði mjög góður alþingisþingmaður. Ég skora því á stuðningsmenn Samfylkingarinnar að taka þátt í prófkjörinu og veita Guðbjarti brautargengi til forystu á framboðslista flokksins í komandi alþingiskosningum.

Hörður Ó. Helgason skólameistari Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi