30/10/2024

Sama bensínverð allsstaðar af tilefni 60 ára afmælis

Bensínverð Essó er á sama verði á öllum sjálfsafgreiðslustöðvum félagsins í tilefni af 60 ára afmælis Olíufélagsins hf, þannig að í dag verður bensínlíterinn á kr. 115,40 og dísellíterinn á kr. 109,80. Hólmvíkingar ættu að gleðjast sérstaklega yfir deginum en bensínverð hefur ávallt verið í hæsta prís hjá Essó á Hólmavík miðað við aðrar stöðvar og því talsvert hærra undanfarið en afmælis-verðið í dag, og munar þar u.þ.b. 14 krónum. Það er því færi á að fylla tankinn í dag og sitja um leið við sama borð og flestir aðrir landsmenn hvaða bensínverð varðar. Það stóð til í dag að gera verðsamanburð á milli Essó bensínstöðva í næsta nágrenni Hólmavíkur, en það mun bíða þar til allir hafa jafnað sig eftir afmælisgjöf Olíufélagsins.

Olíufélagið hf var stofnað hinn 14. júní 1946. Aðalhvatamaðurinn að stofnun félagsins var Vilhjálmur Þór, þáverandi forstjóri Sambands íslenskra samvinnufélaga, og var hann kjörinn fyrsti stjórnarformaður.

Á allra næstu dögum verður hér á strandir.saudfjarsetur.is gerður verðsamanburður hjá bensínstöðvum Essó á Hólmavík, Drangsnesi, Norðurfirði, Reykjanesi, Bjarkarlundi, Króksfjarðarnesi, Búðardal og Brú. Þá mun koma í ljós hvort það hefur við rök að styðjast að viðskiptavinir Essó á Hólmavík þurfi að greiða hærra verð fyrir eldsneytið þar en á öðrum bensínstöðvum í kringum Hólmavík.