22/12/2024

Sala á Nauteyri undirbúin

NauteyriÁ fundi sveitarstjórnar Strandabyggðar á dögunum var fjallað um sölu á jörðinni Nauteyri sem sveitarfélagið á. Í skýrslu sveitarstjóra sem lögð var fyrir fundinn greinir frá viðræðum við Magnús Leopoldsson fasteignasala og fram kemur það álit hans að það rýri verðgildi jarða ef lóðir eru seldar sér og einnig ef vatnsréttindi fylgja ekki. Á sama fundi var hafnað beiðni frá Ólöfu B. Jónsdóttur og Reyni S. Stefánssyni sem óskuðu eftir að fá keypta lóðina sem hús þeirra stendur á í landi Nauteyrar. Einnig kemur fram að væntingar sveitarstjórnar um söluverð eru miklar. Á Nauteyri eru nokkur sumarhús og íbúðarhús í einkaeigu, eldisstöð Háafells ehf, félagsheimili, kirkja og fjarskiptahús Mílu.


Textinn í fundargerðinni er svohljóðandi og birtist undir liðinn skýrsla sveitarstjóra þannig að ég og mér er þá væntanlega skýrslugerðarmaðurinn Ásdís Leifsdóttir sveitarstjóri Strandabyggðar, við og okkur sveitarstjórnin sjálf og hann og honum er í flestum tilvikum Magnús fasteignasali:

"Magnús Leópoldsson fasteignasali hafði samband vegna mats á … jörðinni Nauteyri … Hafði hann nokkrar fyrirspurnir fram að færa varðandi sölu jarðarinnar s.s. hvort spildur undir bústöðum væru eignarlóðir eða leigulóðir og taldi það ekki gott ef við ætluðum að selja þessar spildur sér. Hann sér um sölu á íbúðarhúsinu á Nauteyri og því kunnugt um að eigendur þess, Reynir og Lóa, ætla sér að fá keypt landið sem húsið stendur á. Telur Magnús það slæmt því reynslan hafi sýnt að það rýri verðgildi jarða sem eru mikið bútaðar. Vildi hann einnig fá verðhugmyndir frá okkur og sagði ég honum að væntingar okkar væru miklar. Til sölu eru jarðir í Skötufirði og Seyðisfirði sem og Dýrafirði og víðar og hafa þær ekki rokið út eins og ætla mætti. Spurðist hann fyrir um vatnsréttindi og lækkar það verðmat jarðarinnar enn frekar að þau fylgja ekki með. Tjáði hann mér að hann vissi um einstakling á Suðurlandi sem væri að berjast fyrir því að fá til sín vatnsréttindin og væri sá hinn sami afar bjartsýnn á að úrskurðað yrði honum í hag. Ætlar hann að leyfa mér að fylgjast með framvindu þess máls. Búið er að undirrita leyfi til að auglýsa jörðina til sölu …" 

Meðfylgjandi mynd tók Ingimundur Pálsson og er hún fengin af vefsíðu hans www.123.is/mundipals.