22/11/2024

Rúdólf með rauða nefið vekur óhug

Erlendar jólafréttir
Ameríska hreindýrið Rúdólf með rauða nefið, sá sem dregur sleða jólasveinsins þar í landi og dásamar Coca Cola á milli sleðaferða hefur vakið upp óvenjulegar tilfinningar hjá íbúum í Orlando á Flórida. Þó er ekki svo að hann hafi gert eitthvað af sér, heldur fer það fyrir brjósti á fólki að í garði einum í íbúðarúthverfi hefur verið komið fyrir óvenjulegri jólaljósaskreytingu. Skreytingin sýnir þar sem gamli góði Rúdólf með rauða nefið hangir steindauður neðan úr trjágrein og blóðið lekur í dropatali úr honum. Skreytingin minnir meira á hangandi bráð en jólagleði og margir íbúar hverfisins hafa farið fram á það við yfirvöld að skreytingin hverfi þegar í stað.

Eigandi Ljósa-Rúdólfs, sem er mikill veiðimaður vill meina að skreytingin sé í fínu lagi og lætur sér fátt um finnast þó flestum nágrönnum hans finnist skreytingin vægast sagt ósmekklegt. Hann segir að sér finnist þetta drepfyndið og bendir á að Rúdolf gamli láti ekki veiða sig svo auðveldlega og bætir við að það sé ekkert réttlæti í því að nágrannar hans reyni að eyðileggja fyrir sér jólagleðina með einhverri óþarfa viðkvæmni.


Rúdólf með rauða nefið hangir neðan úr trjágrein