22/12/2024

Rottubragurinn kom í leitirnar

Hólmvíkingurinn Þorsteinsína Gestsdóttir sem býr núna í Garðinum og er einn af dyggum lesendum strandir.saudfjarsetur.is, lagðist í mikla leit þegar spurt var eftir rottubragnum í frétt um krufningu spendýra í Grunnskólanum á Hólmavík fyrir tveimur dögum og sendi vefnum þetta litla bréf.

Það vildi svo skemmtilega til að ég fann botninn í rottubraginn 🙂 Ég hef geymt hann á góðum stað öll þessi ár en man ekki hver samdi hann. Gaman væri að vita hvort hægt sé að komast að því hver samdi þennan brag 🙂 Vitið þið hver samdi hann????
Bestu kveðjur til Hólmavíkur,
Ína Gests Hólmvíkingur með meiru 🙂 með lögheimili í Garðinum heheh 🙂

Bragurinn fylgir hér að neðan og einn tíðindamaður strandir.saudfjarsetur.is raulaði hann inn ef vera kynni að einhver vildi rifja hann upp eða læra hann. Það skal tekið fram að sá er þenur barkann er ekki heimsfrægur óperusöngvari, en góða sönghæfileika þarf til að syngja þetta lag, sem eru því miður ekki að finna í tilfelli flytjandans.

Það kom ein kyndug rotta,
kaupfélag að totta.
Þessum fjanda þurfti strax að ná.
Allir út til veiða, æstir hana að seiða
margar brellur mátti þarna sjá.
Ýmsir lögðu öðrum sniðug ráð
illa fyrir greyinu var spáð.
Í vígahug, vígahug
var hið mikla stríðið háð.
 
Allar gildrur egna
öryggisins vegna.
En fjandans rottan flá í sinni var.
Byssur vélarmanna vildu ei raunir kanna
brá á leikinn bara á næturnar.
Þá var næði hennar starfa við
þetta vissi rottukvikindið.
Sof í ró, sof í ró
sjálft í næði veiðilið.
 
En þegar allt gekk illa
átti hana að fylla.
Fressið skyldi fara á kenderí.
Hellt var hátt úr pela hana til að véla
flestir ættu að finna bragð af því.
Þegar allt var orðið kyrrt og rótt
arkaði hún fram um svarta nótt.
Skammtinn sinn, skammtinn sinn
teigaði hún títt og ótt.
 
En að leit var unnið
af henni var runnið.
Þaut á burtu þó það væri bags.
Þá hrópar heila röðin hún hefur klárað mjöðinn
nú er best að grípa greyið strax.
En hvergi fannst hún, kátlegt var það grín
hvað hún þoldi mikið brennivín.
Dýrt er það, dýrt er það
dýr að gera fyllisvín.
 
Eftir mikla mæðu
mett í pokastæðu.
Fannst hún loksins fjandans nagdýrið.
Henni höggin rétta, hún svo dó við þetta
sigur hafði sameiningarlið.
Þúsund krónur sögðu sumir frá
sem mun kosta dýrinu að ná.
Rannsóknin, rannsóknin
raunar sýndi högna þá.

Smelltu hér og syngdu með tíðindamanninum.