22/11/2024

Rjúpur gera usla

150-rjupaitreEins og áður hefur komið fram hér á vefnum hafa starfsmenn Sögusmiðjunnar á Kirkjubóli staðið í mikilli heimildasöfnun um Strandir og Strandamenn undanfarin misseri. Margt skemmtilegt hefur safnast þar, meðal annars þessi grein sem birtist í Morgunblaðinu í ágúst 1918 (eftir frostaveturinn mikla) undir fyrirsögninni Úr Steingrímsfirði. Hún er birt hér nú í og með af því að rjúpur hafa gert sig heimakomnar í görðum nú eftir áramótin.

Úr Steingrímsfirði (1918):
Rjúpur gera usla
Sú nýlunda hefir borið við í sumar að rjúpur hafa skemt matjurtagarða. Á Hólmavík hefir orðið að reka þær hópum saman úr görðum, hafa þær bitið kálið og eyðilagt þannig rófnatekju, þar sem þær hafa komið snemma í garðana. Í Hrútafirði er víða kvartað undan þessu.
Í Bæ í Hrútafirði eyðilögðu rjúpur í sumar garð fyrir Guðmundi G. Bárðarsyni bónda þar. Átti hann þar einnig trjáplöntur ýmsar og sáu rjúpurnar alveg fyrir þeim. Ekki hefir heyrst fyr getið um að rjúpur hafi verið svona nærgöngular á sumrum og vita menn ekki hvað veldur. En sumir segja að til fjalla sé nú mjög lítið um grænt rjúpnalauf. Líti út fyrir að það hafi dáið út í vetur.
Heyfengur
Heyfengur manna hér um Steingrímsfjörð, og þaðan inneftir að minsta kosti, má heita góður orðinn. Auðvitað voru töður víða litlar sem engar. Bezt þriðjungur. Aftur á móti hafa menn mjög víða heyjað mikið af útheyi svo að margir hafa nú fengið í heystæður sínar jafnmikla fyrirferð af heyjum og venjulega, en auðvitað minna að fóðurgildi þegar töðurnar vanta. Nýting hefur verið ágæt. Þó mun Bæjarhreppur nú vera einna heybirgasti hreppur sýslunnar og sennilega þó víðar væri leitað.
Það er ekki búist við neinni sérlegri fækkun hér í haust á búpeningi manna.
Laxveiði
Venjulega sézt hér aldrei lax í ám, en nú hefir svo við brugðið að lax hefir veiðst í ám, sem menn ekki muna til að lax hafi áður sézt í. Svo er um Víðidalsá. Veiddust þar fyrir nokkru 9 laxar frá 12-16 punda, í einum hyl, og voru ekki önnur veiðarfæri viðhöfð en rauðmaganet. Var það tilviljun ein að þetta var reynt, að eins af því að lax sást í ánni, annars hefði engum dottið þetta í hug.
Í Staðará hefur einnig orðið vart við lax. Sennilega hefir laxinn gengið hér í fleiri ár, þó menn ekki viti, því að engum hefur dottið í hug að reyna. Hvernig stendur nú á þessu að alt í einu verður laxvart í ám Vesturlands? Getur það staðið í sambandi við seladauðann? Eða er það að eins af því að laxmergðin er mikil þetta ár? Hver vill svara?