Heimilt verður að veiða 45 þúsund rjúpur í ár en það er nokkuð minni heimild en á síðasta ári en þá mátti veiða 75.000 fugla. Þessi ákvörðun er tekin í samræmi við tillögur Náttúrufræðistofnunar Íslands. Rjúpnaveiðitímabilið hefst á sama tíma og á síðasta ári, þann 15. október og verður heimilt að veiða til 30. nóvember. Óheimilt verður að veiða rjúpur á mánudögum, þriðjudögum og miðvikudögum og áfram verður sölubann á rjúpu og rjúpnaafurðum. Veiðidagar verða samtals 26 dagar. Hver veiðimaður getur að jafnaði veitt níu fugla miðað við fjölda veiðikorta í landinu. Rétt er að minna veiðimenn á Ströndum á að heiðalönd hér um slóðir eru öll í einkaeign og leyfi landeigenda þarf til veiðanna.