26/12/2024

Ríkisstjórnin ræður ferðinni – Seðlabankinn hlýðir

Grein eftir Kristinn H. Gunnarsson
Hækkun stýrivaxta Seðlabankans um 6% kom mörgum á óvart. Viðbrögð forystumanna ríkisstjórnarinnar hafa verið um sumt óskýr og um annað misvísandi, en myndin hefur verið að skýrast í dag. Samandregið er hækkunin í framhaldi af samkomulagi milli ríkisstjórnarinnar og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Til þess að byrja að hrinda í framkvæmd nýrri stefnu í peninga- og ríkisfjármálum. Hver stefnan er nákvæmlega leggur hins vegar ekki fyrir, hún hefur ekki verið formlega samþykkt í sjóðsstjórninni og ekki lögð fyrir Alþingi og yfirhöfuð ekki birt opinberlega.

En eitt er ótvírætt, samkomulag hefur verið gert milli ríkisstjórnarinnar og IMF og pólitísk ákvörðun hefur verið tekin af hálfu stjórnarflokkanna. Það er ríkisstjórnin sem ræður en ekki Seðlabankinn. Það eru nokkur tíðindi í ljósi þess að það á að vera hlutverk Seðlabankans að reka peningamálastefnuna og þar með að ákvarða stýrivextina. Vissulega er það bankastjórn Seðlabankans sem formlega tekur ákvörðunina um vaxtahækkunina, en núna er það skýrt að það er ríkisstjórnin sem gefur fyrirmælin.

Seðlabankinn sjálfur segir þetta skýrt á heimasíðu sinni í gær með eftirfarandi orðum:

„Í liðinni viku gerði ríkisstjórnin samkomulag við sendinefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Í samkomulaginu, sem lagt verður fyrir framkvæmdastjórn hans til staðfestingar á næstu dögum, felst m.a. að Seðlabankinn skuli þá hafa hækkað stýrivexti í 18% sem nú hefur verið gert.“

Fyrir hálfum mánuði lækkaði Seðlabankinn óvænt stýrivexti um 3,5%. Það fer ekkert á milli mála að bankanum var skipað að gera þetta. Deginum áður hafði viðskiptaráðherra sagt að stýrivextir yrðu endurskoðaðir þegar fyrir lægi ný þjóðhagsspá. Hún er ekki komin enn. Rök Seðlabankans þá fyrir lækkun stýrivaxtanna voru að framundan væri samdráttur í efnahagslífinu. Þau rök hafa ekkert breyst en samt eru vextirnir fýraðir upp. Hin hreina og tæra mynd sem blasir við er að Seðlabankinn lýtur beinni stjórn ríkisstjórnarinnar. Tvívegis á tveimur vikum hefur ríkisstjórnin sent bankanum sín fyrirmæli. Ákvæði laga um sjálfstæði bankans eru orðin tóm um þessar mundir.

Viðbrögðin við seinni ákvörðuninni eru að hluta til mótsagnakennt. Sumir þeirra sem hvað ákafast töluðu fyrir því að leitað yrði til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eru nú síður tilbúnir að standa við afstöðu sína og leka niður undan óþægindunum eins og bráðið smjör. Máttu þeir þó vita hvað fylgdi umsókninni og það betur en margur annar. Sá sem er í nauðum staddur og að verulegu leyti fyrir eigin tilverknað getur ekki ákveðið hvernig hann vill hafa skilmálana.

Það er grundvallaratriði þegar sótt er um lán að lánveitandi vill fá það greitt til baka og það þarf að sannfæra hann um það að svo verið gert. Það er sú staða sem Íslendingar eru í um þessar mundir.

Seðlabankinn, forsætisráðherra, fjármálaráðherra og utanríkisráðherra ber öllum saman um málið og styðja hækkun stýrivaxtanna. En menntamálaráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins fer aðrar leiðir og segir hækkunina ekki heppilega í viðtali við Stöð2 í gærkvöldi. Þessi viðbrögð gera það að verkum að stjórnarflokkarnir verða að svara því hvort þeir séu samstiga í málinu og hvort þingmeirihluti sé fyrir samkomulaginu við IMF. Ríkisstjórn getur ekki talað tveimur tungum sérstaklega ekki í svo mikilvægu máli. Er menntamálaráðherra einn með þessa skoðun eða eru fleiri sem styðja ekki stýrivaxtahækkunina?

Fyrir tveimur vikum taldi utanríkisráðherra að tímabært væri að lækka stýrivexti þar sem þyrfti að örva hjól atvinnulífsins. Það var gert. Ráðherann þarf nú að skýra hvers vegna gagnstæð aðgerð er nauðsynleg nú, þegar ekkert hefur breyst í horfum gagnvart atvinnulífinu. Voru það mistök að lækka stýrivextina? Svo virðist vera þegar málið er metið núna, að ríkisstjórnin hafi gert alvarleg mistök þá.

Aðalstriðið er þetta: Það er ríkisstjórnin sem er við stjórnvölinn og ræður ferðinni. Hún þarf að leggja spilin á borðið og kynna stefnu sína og afla henni fylgis og hún verður að standa saman um hana. Það ber feigðina í sér ef einstakir ráðherrar ætla að spila frítt.

Allar ákvarðanir nú verða mjög erfiðar og enginn vandi að benda á ýmsa galla og óþægindi sem fylgja hverju því sem verður ákveðið. En valið er aðeins milli vondra kosta og það er hlutverk ríkisstjórnar að leiða þjóðina áfram gegnum erfiðleikana og finna skárstu leiðina. Stjórnarandstaðan hefur þær skyldur að vinna með ríkisstjórninni og axla sína ábyrgð. Það getur enginn skorist úr leik við þær aðstæður sem ríkja í efnahagslífi þjóðarinnar.

Kristinn H. Gunnarsson, þingmaður
www.kristinn.is