Fjárleitir verða víða á Ströndum um helgina og réttardagar eru í Strandabyggð. Samkvæmt Fjallskilaseðli Strandabyggðar verður réttað í Skeljavíkurrétt laugardaginn 30. september, en leitir fara fram frá Arnkötludal að Ósá 30. september og Ósland verður leitað 1. október. Ekki kemur fram hvenær réttarstörf hefjast. Í Tungusveit er leitardagur laugardaginn 30. september frá Kollafjarðarnesi að Arnkötludal og sama dag kl. 14:00 hefst Kirkjubólsrétt og skal allt réttarfé vera komið til réttar þá.
Í Kollafirði eru leitardagar í norðanverðum firðinum bæði laugardag og sunnudag, en á laugardaginn í honum sunnanverðum. Hálsleit verður sunnudaginn 1. október. Réttað verður að Stóra-Fjarðarhorni sunnudaginn 1. október kl. 14:00.
Seinni Gilleit, norðan mæðuveikisgirðingarinnar í Bitrunni, fer fram laugardaginn 30. september. Ekki kemur fram leitardagur sunnan mæðuveikisgirðingar í Bitrubotni í fjallskilaseðlinum.