22/12/2024

Rekstur Sparisjóðs Strandamanna gekk vel 2007

Sparisjóður Strandamanna á HólmavíkAðalfundur Sparisjóðs Strandamanna var haldinn í Félagsheimilinu á Hólmavík sunnudaginn 13. apríl síðastliðinn. Rekstur Sparisjóðsins gekk vel á árinu 2007, hagnaður og arðsemi eigin fjár var vel viðunandi þrátt fyrir erfiðleika og verðfall á hlutabréfamörkuðum á síðustu mánuðum  ársins, enda samsetning á eignasafni sjóðsins fjölþætt og ekki stór hluti bundinn í hlutabréfum félaga. Sjóðurinn ætti því að vera nokkuð vel í stakk búinn til takast á við þau verkefni sem honum eru ætluð. Hjá Sparisjóði Strandamanna starfa 6 manns í 5 stöðugildum, en höfuðstöðvarnar eru á Hólmavík og einnig er rekin afgreiðsla í Norðurfirði. Sparisjóðurinn annast afgreiðslu Íslandspósts hf. á Hólmavík og er einnig með umboð fyrir Sjóvá Almennar hf.

Hagnaður á rekstrarreikningi ársins 2007 var 66,9 milljónir króna, en auk þess voru færðar 87,3 millj. kr. beint á eigið fé vegna breytinga á reikningsskilaaðferðum, samtals nemur hækkun eigin fjár því 154,2 milljónir króna. Þessi hækkun svarar til þess að arðsemi eigin fjár hafi verið 32,7%. Vaxtamunur af meðalstöðu fjármagns var um 2,3% en var 3,1% árið áður. Hlutfall rekstrarkostnaðar af hreinum rekstrartekjum var 41,2% en var 40,8% árið áður.

Samkvæmt efnahagsreikningi hafa útlán aukist um 44,8% á milli ára og voru í árslok 834,2 milljónir króna. Aukning innlána var 27% og voru þau í árslok 560 milljónir króna. Eigið fé Sparisjóðsins var í árslok um 829,8 milljónir króna. Stofnfé sjóðsins var um áramót 204,5 milljónir en það var aukið um 195,2 milljónir króna á árinu. Eiginfjárhlutfall skv. CAD reglum er um 32,4% en var 40,4% árið áður og má það ekki vera lægra en 8%.

Samþykkt var að greiða 25,35% arð til stofnfjáraðila en stofnfjáraðilar eru nú 102.

Sem fyrr hefur Sparisjóðurinn veitt styrki til menningar- og íþróttastarfa í héraðinu ásamt stuðningi við ýmis líknar- og góðgerðarfélög í landinu og námu þeir á nýliðnu starfsári um 1,1 milljónum króna.

Stjórn sparisjóðsins var öll endurkjörin á fundinum en í henni eru: Björn Torfason, Sigurður Jónsson, Guðjón Sigurgeirsson, Þórður Sverrisson og Jenný Jensdóttir. Björn Torfason er stjórnarformaður Sparisjóðs Strandamanna, en Guðmundur B. Magnússon er sparisjóðsstjóri.