22/12/2024

Ráðstefna um bláskeljarækt

Samtök skelræktenda standa fyrir ráðstefnu um bláskeljarækt þann 12. janúar næstkomandi á Hótel KEA á Akureyri. Dagskráin hefst kl 9.30 með ávarpi sjávarútvegsráðherra. Ráðstefnan er sérlega áhugaverð fyrir aðila í sjávarbyggðum og þá sem leita nýrra tækifæra í sjávarútvegi. Ráðstefnan SKELRÆKT 2007 er þannig kærkomið tækifæri fyrir þá sem huga að nýsköpun til að kynna sér möguleika greinarinnar. Nánari upplýsingar og skráning er á vefnum www.skelraekt.is

Með þróunarvinnu íslenskra frumkvöðla hefur verið safnað mikilli þekkingu á skelrækt á síðustu árum. Ræktunarfyrirtæki, vinnslur og dreifingaraðilar austan hafs og vestan, hafa verið heimsóttir í leit að bestu fyrirmyndum, jafnframt því sem mismunandi búnaður og aðferðir hafa verið prófaðar við íslenskar aðstæður.
 
Neysla á bláskel slagar hátt í eina milljón tonna á ári í Evrópu. Hér er því um að ræða einn stærsta sjávarfangsmarkað álfunnar. Íslendingar hafa ekki nýtt sér þennan markað, en fyrirspurnum um bláskel frá Íslandi fjölgar eftir því sem eftirspurn eykst á markaði og fregnir berast af tilraunaræktun við Ísland.
 
Erlendir þáttakendur á ráðstefnunni eru frá Kanada, Grænlandi, Skotlandi, Portúgal, Spáni, Bandaríkjunum, Danmörku og Þýskalandi. Meðal þeirra eru frumkvöðlar og sérfræðingar sem meta ræktunaraðstæður og þróa eftirlits- og stoðkerfi fyrir skelrækt. Í hópnum eru einnig forsvarsmenn fyrirtækja sem þróa og framleiða búnað fyrir skelrækt. Þeir munu einnig munu kynna þá aðferðafræði sem stuðst var við í Kanada við uppbyggingu skelræktar og þá möguleika sem þessi atvinnugrein hefur hér á landi.