23/12/2024

Persónukjör í sveitarstjórnir í vor?

Lagt hefur verið fram stjórnarfrumvarp á Alþingi um persónukosningar í sveitarstjórnarkosningum og alþingiskosningum. Ekki er annað að skilja á frumvarpinu en að ætlast sé til að það verði að lögum og kosið verði eftir því við kosningar til sveitarstjórna næsta vor. Gert er ráð fyrir framboðslistum, eins og verið hefur, en að þeir verði tvískiptir. Annars vegar verði í boði á hverjum lista jafn margir óraðaðir og eru í hverri sveitarstjórn, t.d. fimm einstaklingar þar sem sveitarstjórn er skipuð fimm mönnum. Þessum einstaklingum fái kjósendur að raða eftir sínum vilja á þeim lista sem þeir kjósa, með því að númera þá frá einum og upp í fimm. Á síðari helmingi hvers lista verði hins vegar raðað jafn mörgum fyrirfram, í númeruð sæti, í sæti 6.-10. í dæminu sem notað var áðan.