30/10/2024

Perlan Vestfirðir – stefnt að stórhátíð

Fram hefur komið áhugi á að efna til Vestfjarðasýningar í Perlunni í Reykjavík dagana 5.-7. maí næstkomandi vor. Um er að ræða kynningu í anda sýningarinnar Perlan Vestfirðir sem haldin var árið 2002. Þar yrði landsfjórðungurinn kynntur, jafnt atvinnulíf, mannlíf, búsetukostir og menning sem víðast um Vestfirði og Strandir. Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða er nú að gera könnun á áhuga meðal atvinnufyrirtækja á slíkri stórsýningu og óskar eftir að þeir sem áhuga hafi á þátttöku láti vita í netfangið atvest@atvest.is.

Markmiðin með sýningunni eru eftirfarandi:
·        Vekja almenna athygli á Vestfjörðum og Ströndum
·        Hvetja til ferðalaga um fjórðunginn
·        Kynna atvinnulíf og framleiðslu
·        Sýna blómstrandi mannlíf og kosti búsetu
·        Hvetja til fjárfestinga í atvinnurekstri

Markaðstofa Vestfjarða mun að líkindum hafa umsjón með verkefninu, en til að af sýningunni verði þarf að nást breið samstaða um þátttöku. Hugmyndin er að þátt taki sveitarfélög, fyrirtæki og félög. Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða hugðist standa fyrir sambærilegri sýningu síðasta vor, en af einhverju ástæðum varð ekkert úr því þá.