22/12/2024

Pælingar um pólitík

Grein eftir Arnar S. Jónsson og Þorstein Paul Newton
Þessa dagana reyna framboðslistar víða um land að sýna fram á sína helstu kosti og málefni til að hljóta brautargengi á kjördag. Við á V-listanum í Strandabyggð höfum kynnt áherslur okkar á ítarlegan hátt í metnaðarfullri málefna- og stefnuskrá sem var send á hvert heimili í Strandabyggð. Við erum stolt af þessu skjali og munum hafa það að leiðarljósi í vinnu okkar á komandi kjörtímabili. Ein algengasta spurningin sem við höfum fengið undanfarna daga er afhverju við séum að bjóða fram krafta okkar undir merkjum stjórnmálaafls. Býður slíkt ekki bara upp á harða pólitík? Er Strandabyggð ekki of lítið samfélag fyrir svona lista? Svarið við þessum spurningum er „Nei“.

Það er ekkert hættulegt við framboðslista undir merki stjórnmálaflokks í Strandabyggð. Reyndar bjóða mörg framboð sem segjast vera ópólitísk sig fram undir pólitískum merkjum, t.d. félagshyggju sem er að öllu leyti stjórnmálalegt og pólitískt hugtak. Munurinn á þessum framboðum og hreinræktuðum stjórnmálaframboðum er því ekki ýkja mikill, í stefnuskránni hjá báðum felst pólitísk yfirlýsing, en áherslurnar geta verið ólíkar. V-listinn í Strandabyggð leggur t.d. mikla áherslu á að byggja upp stjórnsýsluna, gera hana skilvirkari og auka upplýsingaflæði til muna. Minna hefur heyrst af áherslum í þessum málaflokki frá J-listanum sem hefur líka haldið um stjórnartaumana í Strandabyggð síðustu fjögur ár. Hins vegar er frábært til þess að vita að hér í Strandabyggð skuli vera tuttugu manneskjur sem eru boðnar og búnar til að vinna í sveitarstjórnarmálum fyrir Strandabyggð. Slíkt er ekki sjálfgefið og því ber að fagna.

V-listinn mun vissulega fylgja grunnhugsjónum Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs um jöfnuð, réttlæti og félagshyggju. Það þýðir hins vegar ekki að listinn muni standa frammi fyrir svipuðum aðgerðum og grípa hefur þurft til í landsmálunum þar sem VG er nú við stjórnvölinn ásamt Samfylkingu. Ástandið þar er engu líkt. Fólk getur hins vegar gengið að því vísu að við á V-listanum erum sammála um að setja velferðarmál efst í forgangsröðina. Það á að vera gott fyrir börn, fjölskyldufólk, eldri borgara og alla sem minna mega sín að búa í Strandabyggð. Fólk getur verið öruggt um að við munum ekki setja traust okkar á stóriðju eða einstakar töfralausnir í atvinnumálum. Þvert á móti teljum við fjölbreytnina eftirsóknarverða. Fólk getur líka verið öruggt um að við viljum setja skólamál í forgang og teljum að gott mannlíf og öflug menning sé lykilatriði fyrir Strandabyggð. Við munum hlusta á skoðanir allra, óháð aldri, kyni, stöðu og stjórnmálaskoðunum, vinna úr þeim og miðla til annarra íbúa.

Að einhverju marki geta framboð undir flokksmerki einnig átt greiðari aðgang að ráðamönnum á landsvísu til að ná athygli þeirra, koma málum á framfæri eða þrýsta á umbætur sem nauðsynlegar eru og ríkisvaldið kostar, en slíkan þrýsting hefur skort mjög frá sveitarstjórn Strandabyggðar undanfarin ár. Við munum einbeita okkur að því að vinna fyrir Strandabyggð, einsetja okkur að bæta samfélagið og gera byggðarlagið betri búsetukost. Við munum auka alhliða lífsgæði og bæta aðstöðu þeirra sem hér búa og starfa. Málefnin liggja þegar fyrir, en það eru hins vegar fleiri ástæður fyrir því að setja X við V á kjördag.

V-listinn inniheldur:
… kraftmikið fólk – Frambjóðendur V-listans eru tilbúnir til að vinna myrkrana á milli við að efla og styrkja Strandabyggð og bæta lífsgæði íbúa í sveitarfélaginu næsta kjörtímabil.
… nýjar hugmyndir – Málefnaskrá V-listans er stútfull af hugmyndum sem miða að því að gera Strandabyggð að betra sveitarfélagi.
… öðruvísi áherslur – V-listinn leggur ríka áherslu á að bæta skilvirkni stjórnsýslunnar, auka upplýsingaflæði og gera vinnubrögð og verkferla innan sveitarfélagsins faglegri en þeir eru nú.
… fjölbreytni – V-listinn er skipaður fólki af öllum stærðum og gerðum, úr ólíkum atvinnugreinum, með ólíka menntun og bakgrunn og ólíkt sjónarhorn á ýmsa hluti í samfélaginu.
… hugsjónir – Það sem sameinar frambjóðendur V-listans í eina heild eru grunnhugsjónir og framtíðarsýn; einföld hugmyndafræði sem stuðlar að samvinnu allra á listanum og minnkar hættu á misklíð innan listans.

Arnar S. Jónsson og Þorsteinn Paul Newton,
skipa 9. og 5. sæti á V-listanum í Strandabyggð.