22/12/2024

Óvíst hvenær sóst verður eftir unglingalandsmóti

Ásdís Leifsdóttir, sveitarstjóriÁsdís Leifsdóttir sveitarstjóri Strandabyggðar hafði samband við vefinn, vegna fréttar hér fyrr í dag. Vildi hún koma því á framfæri að frumkvæði að umræðum um hvort unglingalandsmótið gæti verið á Grundarfirði árið 2010, komi frá Grundfirðingum sjálfum. Undir þetta tekur Guðmundur Ingi Gunnlaugsson bæjarstjóri í Grundarfirði. Að sögn Ásdísar ákvað sveitarstjórn Strandabyggðar síðan á fundi sínum á þriðjudag að falla frá því að halda mótið 2010 í ljósi erfiðs efnahagsástands. Því geti Grundfirðingar haldið sitt mót þá og hægt sé að leita til byggðakjarna sem þegar hafi tilbúna íþróttaaðstöðu um að halda mótið á þessu ári, ef niðurstaða þeirra og UMFÍ verður sú.

Alls kostar óvíst sé hins vegar að sögn Ásdísar hvort unglingalandsmótið verði síðan haldið árið eftir á Hólmavík, því samkvæmt reglum UMFÍ sé ekki hægt að úthluta því strax. Sækja þurfi um að nýju ef ætlunin sé að halda unglingalandsmót á Hólmavík í framtíðinni, segir Ásdís, og sveitarstjórn Strandabyggðar hefur samþykkt að taka ekki strax ákvörðun um að leggja inn umsókn, vegna erfiðrar stöðu og óvissu í efnahagsmálum þjóðarinnar. Eftir sem áður er ætlunin að halda áfram að byggja upp íþróttaaðstöðu í Brandskjólunum í rólegheitunum og búa í haginn fyrir bætta aðstöðu til íþróttaiðkunar, að sögn Ásdísar.   

Því er allskostar óljóst hvort og þá hvenær unglingalandsmót verður haldið á Hólmavík og raunar frekar ólíklegt að það verði 2011.