05/11/2024

Ótrúleg heppni að enginn slasaðist

Litlu mátti muna þegar vörubíll sem dró gröfu á eftirvagni mætti jeppa á einbreiðri brú yfir Langadalsá í Ísafirði, innst í Ísafjarðardjúpi í síðustu viku. Ökumaður vörubílsins ók þá utan í brúarhandriðið til að forða árekstri við jeppann sem var á mikilli ferð og hefði vart þurft að spyrja að leikslokum fyrir ökumann og farþega jeppans ef bílarnir hefðu lent framan á hvorum öðrum. Vörubíllinn skóf brúarhandriðið niður á nokkrum kafla og fóru hjól hans hægra megin út fyrir kantinn. Bíllinn valt þó ekki út í ána sem hefði verið mikið fall og hylur undir. Kom það til af því að moksturstönn var undir bílnum sem hélt honum á réttum kili og beindi honum einnig frekar upp á brúna aftur en út af vegna afstöðu sinnar. Jeppinn rakst í brúarhandriðið hinu megin og fór síðan útaf hinu megin við brúna og aftur upp á veg áður en hann stöðvaðist.

Lögregla var komin á staðinn eftir nokkrar mínútur en hún var að fylgja flutningabílum með sprengiefni fyrir Bolungarvíkurgöng vestur og tók skýrslu af ökumönnunum. Lokaðist vegurinn meðan verið var að ná vörubílnum upp, en með ólíkindum þykir að bílarnir hafi mæst á brúnni. Ökumaður vörubílsins þykir hafa sýnt mikið snarræði að forða því að ekki fór verr í þetta skipti, þótt ljóst sé að litlu hafi mátt muna.

Hannes

frettamyndir/2008/580-trukkurhannes3.jpg

frettamyndir/2008/580-trukkurhannes1.jpg

Meðfylgjandi myndir tók Hannes Hilmarsson, ökumaður og eigandi vörubílsins, á Gsm-símann sinn á staðnum.